150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um breytingartillögu sem lýtur að því að auka fjárveitingar til skattrannsóknarstjóra. Það kom fram í máli formanns fjárlaganefndar áðan að 307 manns störfuðu að þessum flóknu málum en það er rétt að taka fram, af því að þær tölur eru svolítið villandi, að það eru 29 sem starfa hjá skattrannsóknarstjóra í gríðarlega flóknum rannsóknum. Rannsóknir er varða skattalagabrot eru mjög viðkvæmar, mjög flóknar, teygja sig yfir mörg lönd og geta hæglega brunnið upp ef illa fer.

Nýlega barst til okkar að um 15% af ætluðum skatti af hagnaði fyrirtækja fara til skattaskjóla og eru tapaðar skatttekjur nærri 10 milljarðar kr. Ég skora á þingfólk að hugsa um þá 10 milljarða, hvað hægt sé að gera við þessa peninga ef við stöndum okkur vel þegar kemur að skattrannsóknum. Ég hvet ykkur til að greiða atkvæði (Forseti hringir.) með þessari tillögu.