150. löggjafarþing — 36. fundur,  27. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:56]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það er rétt að byrja á að þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þetta uppistand hérna í pontu. Þessi fjárlög eru kannski fyrst og fremst eftirtektarverð fyrir það að hér er Sjálfstæðisflokkurinn að slá öll fyrri útgjaldamet í þeirri tíð sem flokkurinn hefur verið með stjórn fjármálaráðuneytisins, sem hann hefur lengst af verið með, og höfum við aldrei séð annað eins. Því miður var tækifærið ekki nýtt til þess að veita atvinnulífinu, til að veita heimilunum nauðsynlegt súrefni við þessar kringumstæður með því að lækka skatta. (Gripið fram í.) Í staðinn var stefnt að því að auka báknið enn frekar. Það er það sem við munum standa uppi með sem arfleifð þessarar ríkisstjórnar, mestu útþenslu ríkisbáknsins sem nokkurn tímann hefur átt sér stað. Það er miður.

Mig langar að taka undir orð hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Það er líka synd að sjá heit ríkisstjórnarinnar um breytt vinnubrögð hér í þingsal í verki með því að fella allar tillögur minni hluta til bóta á þessum fjárlögum.