150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

frumvarp um Menntasjóð námsmanna.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að eiga aðeins orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um frumvarp hennar um væntanlegan Menntasjóð námsmanna. Ég hef vissar áhyggjur af áformum þar um vaxtamál og við í Samfylkingunni tökum undir kröfur stúdenta um vaxtaþak og ekki bara við, heldur líka BHM, ASÍ og samstarfsnefnd háskólastigsins þar sem sitja hinir grandvöru og orðvöru rektorar á háskólastigi. Við erfiðar efnahagskringumstæður getur hátt vaxtastig haft veruleg áhrif á greiðslubyrðina og við slíkar aðstæður, þegar t.d. atvinnuleysi eykst, ættu stjórnvöld frekar að hvetja fólk til að sækja í frekara nám. Það þarf ekki mikið til að háir vextir éti upp ágóðann sem námsmaður fær af niðurfellingu höfuðstóls. Þá þarf ekki að líta mörg ár aftur í tímann til að sjá að efnahagsástandið í dag endurspeglar ekki efnahagsástand almennt á Íslandi eins og það hefur verið á umliðnum áratugum og kann að verða. Svipað kerfi og hér er áformað kann að virka vel erlendis en á Íslandi búum við við óstöðugan gjaldmiðil. Þess vegna er nauðsynlegt að okkar mati að hafa hámark á vöxtum nema þá að til standi að taka upp nýjan gjaldmiðil, sem ég held að standi ekki til.

Í greinargerð kemur fram að ekki hafi verið hægt að bregðast við athugasemdum um vexti þar sem forsenda þess að lánakerfið gangi upp sé sú að kerfið standi undir sér. Þess vegna þarf að breyta þessu frumvarpi í veigamiklum atriðum ef á að taka upp vaxtahámarkið og leggja meiri fjármuni í kerfið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) hvort hún sé tilbúin að vinna það með allsherjar- og menntamálanefnd að tryggja að vextir námslána rjúki ekki upp úr öllu valdi.