150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tímasetning næstu alþingiskosninga.

[15:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Eins og við hér í þessum sal munum eflaust vel voru alþingiskosningar árið 2017 haldnar á heldur óvenjulegum tíma, þ.e. á haustmánuðum síðla árs, vegna þess að stjórnarsamstarfið þar á undan sprakk út af málinu um uppreista æru. Þetta hafði raunar gerst áður, árið 2016, þ.e. tímasetningin á kosningunum sem voru þá haldnar að hausti en ekki vori eins og venjan er, og aftur vegna þess að stjórnarsamstarf sprakk, þá vegna Panamaskjalanna. Ég kem hingað upp til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það liggi fyrir hvort kosningar verði haldnar á haustmánuðum 2021 eða hvort forsætisráðherra og ríkisstjórnin hyggist halda alþingiskosningar á eðlilegum tíma á vormánuðum 2021.