150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara fyrst minna á að mér finnst þetta óeðlilegt mál. Mér finnst þetta fáránlegt mál, eins og ég fór yfir í ræðu minni, og lýsi því enn og aftur yfir að ég sveiflast mikið til í afstöðu minni til þess hvernig ég hefði greitt atkvæði, þ.e. ef ég ætlaði að greiða atkvæði um það, en ég mun sitja hjá vegna tengsla.

Hv. þingmaður talaði um að þarna væri löggjafinn að taka að sér hlutverk sem tilheyrði dómstólum með réttu, sjónarmið sem ég skil og ber virðingu fyrir. Það er fjallað um þetta í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji hættu á því að málið beinlínis brjóti í bága við stjórnarskrá. Ef svo er ekki velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður telji ekki réttast að skýra hlutverk dómstóla í stjórnarskrá með svokallaðri breytingu á henni. Ef hv. þingmaður telur málið stangast á við stjórnarskrá, er þá ekki rétt að færa umræðuna yfir á það atriði sérstaklega?