150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[16:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt í þessu máli er áhugavert. Í 1. og 2. gr. frumvarpsins eru atriði sem almennt séð gætu verið ágætisbreytingar, t.d. það að greiðslur sem koma til vegna svona mála komi ekki til frádráttar frá lífeyrisgreiðslum og lögum vegna almannatrygginga og svoleiðis. Það er kannski það helsta sem ég hef við þetta mál að athuga, að þau atriði sem koma fram í frumvarpinu eru sértæk í þessu tilviki. Ef ætlunin er að gera þau almenn get ég vel tekið undir þau. Píratar eru m.a. með þingmál sem er svipað 1. mgr. 2. gr. og varðar það að miskabætur komi ekki til skerðingar á greiðslum vegna laga um almannatryggingar. Ég sé þetta frumvarp ekki sem afsal neins sem er ekki nú þegar í höndum framkvæmdarvaldsins, t.d. í 1. mgr. 1. gr., að ráðherra sé heimilt að greiða bætur í kjölfar dóms Hæstaréttar hvað þetta mál varðar. Það er það sem ráðherra gerir hvort eð er. Að mínu viti er óþarfi að hafa það ákvæði.

Næsta grein er um að þetta nái til stærri hóps sem væri kannski góð almenn breyting en þá vildi ég sjá lög um þá almennu breytingu en ekki sértæka og hið sama á við um 1. mgr. 2. gr. sem er sérstakt mál um.

Síðasta málsgreinin í 2. gr. er svo sem svipuð upp á það allt að gera. (Forseti hringir.) Það er kannski á þeim nótum sem ég kallaði þetta í 1. umr. vissa sýndarmennsku af því að ákveðin mistök voru gerð og þetta er redding með sértækum úrræðum sem ættu að vera almenn. Ég hefði viljað sjá almennu lausnirnar.

(Forseti (ÞorS): Forseti minnir á tímamörk.)