150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

búvörulög.

433. mál
[19:07]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og einnig vil ég óska honum til hamingju með það samkomulag sem nú liggur á borðinu og er hér til umfjöllunar. Ég treysti því að frumvarpið verði að lögum og efast ekki um það því að þetta er mjög mikilvægt. Ég efast heldur ekki um það að kúabændur komi til með að samþykkja þetta samkomulag.

Ég vil líka þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir ræðuna áðan sem var verulega upplýsandi og góð og fagna því að gamli Halli hafi risið upp. [Hlátur í þingsal.] — Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki gert þetta eins og reglur gera ráð fyrir að menn geri í ræðustóli en að hlusta á hv. þm. Harald Benediktsson áðan minnti mig á þá gömlu góðu tíma þegar Haraldur var formaður Bændasamtakanna. Þetta er akkúrat það sem við þurfum inn í þennan sal, að menn ræði landbúnaði af skynsemi og þekkingu. Það er mjög mikið atriði. Vissulega ræða menn hér um landbúnað fram og til baka en því miður er undirstaðan ekki alltaf sú sem maður vildi og svo sem ekki hægt að gera ráð fyrir því að allir hafi sömu þekkingu og undirstöðu og hv. þm. Haraldur Benediktsson. En þetta er mjög mikilvægt í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Það er að bera í bakkafullan lækinn að bæta í það sem hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði en ég ætla aðeins að koma inn á, sem ég held að hv. þingmaður hafi ekki gert, þá breytingu sem varð. Það lá fyrir ákveðið samkomulag milli bænda og ríkis og við þekkjum þann spíral sem síðan fór í gang og þær óánægjuraddir sem heyrðust meðal bænda sem sneru fyrst og fremst að því að í upphaflega samkomulaginu var ekki hið svokallaða hámarksverð tíundað, sem ég tel að sé til mikilla bóta í því samkomulagi sem liggur fyrir. Það ber að þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa hlustað á raddir bænda en þeir höfðu verulegar áhyggjur af því hvert mjólkurframleiðslan myndi stefna ef ekki yrði ákveðið taumhald haft á því þegar við opnum á það framsal sem fyrirhugað er á milli manna. Við getum alveg séð fyrir okkur að þó svo að það hefði verið ákveðið hámark sem mátti versla upp að á þessum jafnvægismarkaði, þ.e. menn máttu í mesta lagi kaupa 50.000 lítra í einu, hefði mjólkurlítrinn jafnvel geta farið í 500–700 kr. En í því samkomulagi sem hér liggur fyrir er talað um þrefalt lágmarksverð á innveginni mjólk sem við getum séð að eru 260–270 kr. Ef ég hef skilið þetta rétt kemur framkvæmdanefnd búvörusamninga þá til skjalanna og fer eitthvað að skakka leikinn og biðja menn að róa sig. Ég sé alveg í hendi mér að menn fari mjög fljótlega í það því að eftirspurnin eftir mjólkurkvóta er mikil. Við vitum að framleiðslugeta í íslenskum fjósum er gríðarleg. Menn hafa verið að byggja og fjárfesta í auknum tæknibúnaði og þessi fjós kalla á mjólkurkvóta. Auk þess vitum við, og skulum hafa það á hreinu í þessari umræðu, að það er fjöldinn allur af kúabændum sem bíður eftir því að geta selt frá sér framleiðsluréttinn. Það væri engin sanngirni í því fyrir framtíð mjólkurframleiðslunnar að fara að bera þær þungu byrðar sem gætu skapast ef við hefðum ekki ákveðið taumhald á því hvert verð á mjólkurkvóta gæti orðið. Sá samningur sem er milli ríkis og bænda er fyrst og fremst hugsaður sem slíkur fyrir neytendur í landinu. Það er lykilatriði. Þetta er ekki hugsað þannig að við ætlum að vera hér með einhver verðbréfaviðskipti. Sá samningur sem er á milli ríkis og bænda er fyrst og fremst íslenskum neytendum til bóta.

Varðandi þá atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir skilst mér að hún fari nokkuð rólega af stað og það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart. Það hefur oft verið þannig með bændur að menn greiða atkvæði með seinni skipunum og núna rétt áðan skilst mér að 25% bænda á kjörskrá væru búin að greiða atkvæði, mig minnir að það séu rétt um 1.300 bændur á kjörskrá. Ég minni líka á að það hefur verið ansi misjöfn þátttaka í þeim samningum sem hafa verið til afgreiðslu hjá bændum undanfarin ár. Einna best var hún held ég 2016 þegar 70% bænda tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem þá var.

Að lokum, hæstv. forseti, trúi ég því mjög fastlega að kúabændur, mjólkurframleiðendur, komi til með að samþykkja þetta samkomulag. Og af hverju segi ég það? Af því að í samkomulaginu er horft til framtíðar. Þar er ákveðin framtíðarsýn. Við vitum þá hvernig við eigum að haga okkur í mjólkurframleiðslunni til ársins 2026. Það að við séum að festa greiðslumarkskerfi í sessi núna með ákveðnum heimildum varðandi framsal veitir stöðugleika innan greinarinnar. Við viljum líka sjá, eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson kom inn á í andsvari við hv. þm. Sigurð Pál Jónsson, fjölbreytileika í mjólkurframleiðslu. Við viljum sjá mjólkurframleiðsluna vítt og breitt um landið, ekki bara á ákveðnum svæðum hér á landi. Það er eins með hana og ýmsar aðrar búgreinar, og tala ég um þá búgrein sem stendur mér næst sem er sauðfjárræktin, mjólkurframleiðslan er ekkert ósvipuð. Hún er hryggjarstykki í ansi mörgum byggðum og veitir gríðarlegum fjölda fólks atvinnu, myndi ég segja. Það er svolítið öðruvísi með þessa búgrein en þá búgrein sem oft er rætt um, sauðfjárræktina, að þar eru menn ekki í því í sjálfu sér að sækja mikið vinnu utan búsins. Mjólkurframleiðslan stendur það vel að hún getur greitt fólki mannsæmandi laun. Það er held ég líka hluti af þessu samkomulagi sem tryggir það áfram að greinin er ekki að fara í neinum um heljarstökkum áfram heldur er stöðugleiki fram undan. Við höfum framtíðarsýn og því ber að fagna.

Herra forseti. Ég vona að þetta mál fái fljótan framgang innan þingsins. Ég á von á því að atvinnuveganefnd taki rösklega til hendinni og komi málinu vel áfram því að það er engum greiði gerður með því að bíða með þetta ágæta og góða samkomulag sem nú liggur á borðinu.