150. löggjafarþing — 39. fundur,  3. des. 2019.

heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017.

183. mál
[19:18]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Nú þegar allsherjar- og menntamálanefnd er búin að funda um málið er pínu skrýtið að vera á mælendaskrá áður en framsögumaður nefndarinnar kemst að. Mig langar til að fjalla örstutt um þau atriði sem ég hafði um þetta mál að segja. Fjögur atriði í þessu frumvarpi eru lykilatriðin. Til að byrja með segir í 1. mgr. 1. gr.:

„Ráðherra er heimilt að greiða bætur í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands 27. september 2018 í máli nr. 521/2017.“

Ég tel þetta óþarfa málsgrein því að ráðherra er að sjálfsögðu heimilt að gera þetta eins og gengur og gerist. Ég skil ekki þessa tvítekningu þegar allt kemur til alls. Síðan segir í 2. mgr. 1. gr.:

„Bætur skulu greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru. Fjárhæð bóta skal meðal annars miðast við lengd frelsissviptingar.“

Ég gerði athugasemd við þetta í andsvörum fyrr í umræðunni af því að hluti af ástæðunni fyrir því að ég styð þetta mál, sem mér finnst annars vegar eilítið undarlegt, er að þetta ætti að sjálfsögðu að vera almenn grein í lögum yfirleitt. Það að koma með það sem sérstaka klausu og í rauninni sérlög finnst mér ekki endilega til eftirbreytni. Það má vera að einhver flýtir sé í gangi sem ég skil alveg í þessu máli svo langt sem það nær og það taki kannski lengri tíma að skoða heildarsamhengið og því liggi meira á að klára nákvæmlega þetta atriði.

Í 1. mgr. 2. gr. er talað um mjög mikilvægt atriði sem er svipað máli sem við Píratar erum með og höfum lagt fram á máli nr. 7, minnir mig að hafi verið. Það fjallar um að óheimilt er að skuldajafna kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana þeirra á móti greiðslum samkvæmt lögum þessum. Greiðslurnar mynda hvorki stofn til frádráttar vegna annarra greiðslna sem einstaklingur kann að njóta, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar, eða úr lífeyrissjóðum né hafa áhrif á réttindi einstaklinga í almannatryggingakerfinu að öðru leyti.

Þetta finnst mér, samanber frumvarp Pírata, vera algjört lykilatriði. Þegar fólk fær miskabætur eða annað á að sjálfsögðu ekki að skerða tekjur þess eða réttindi að öðru leyti. Þegar það fær greiddar bætur fyrir tjón eða miska sem það hefur orðið fyrir eiga þær að sjálfsögðu að vera algjörlega óháðar öllum öðrum tekjum eða greiðslum. Það ætti að vera auðvelt að gera þetta ákvæði að almennum lögum hvað allt svona varðar.

Að lokum í 2. mgr. 2. gr.:

„Kjósi aðili skv. 2. mgr. 1. gr. að leita réttar síns fyrir dómi skal við ákvörðun bóta draga frá verðmæti bóta sem kunna að hafa verið greiddar samkvæmt lögum þessum.“

Ég tel þetta góða varúðarmálsgrein og gott að hafa þarna ef sá samningur sem framkvæmdarvaldið gerir við viðkomandi gefur ekki þær niðurstöður sem hann telur sig eiga rétt á og gerir tilkall til. Það að hann geti leitað réttar síns til þess að ná betri niðurstöðu er bara í fínu lagi.

Ég vildi sem sagt vekja athygli á því að þetta eru ágætistillögur. Það er varhugavert að hafa þær svona sértækar, hafa sérstök lög fyrir sérstakt mál, sérstaklega þegar tillögurnar sem slíkar ættu að virka almennt. Það kom fram í 1. umr. að það væri ákveðið vandamál að greiða afkomendum hinna látnu bætur, geta ekki greitt þeim bætur sem hefðu í raun annars erfst. Það ætti að öllu jöfnu að vera almenna reglan myndi maður halda og ég hefði kosið að hér kæmi mál sem fjallaði almennt um þetta því að þá værum við ekki að tala um sérstakt mál og sérstaklega ekki þetta mál. Þá væri ekki hægt að segja að það væru mögulega einhver pólitísk afskipti af þessu máli og þess háttar. Það er það sem maður vill fjarlægð frá sem þingmaður því að við höfum þrískiptingu valds og þegar verið er að setja svona sértæk lög verða þau skil ekki eins ljós og þau ættu að vera.

Við búum að sjálfsögðu við gríðarlegt vandamál í tengingu framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það eru ekkert rosalega mikil skil þar á milli miðað við hvernig meiri hluti í þingkosningum fer alltaf saman við og tekur framkvæmdarvaldið og að lokum er það framkvæmdarvaldið eða ráðherrar sem nota þingið sem nokkurs konar stimpilpúða þegar allt kemur til alls. Við sjáum sérstaklega merki um það áður en kemur að hléum eða þinglokum. Þá er hrúgað inn málum sem þurfa að klárast einn, tveir og tíu. Það rennir ekki beint stoðum undir það að Alþingi sé sjálfstætt hvað það varðar, síður en svo. Við viljum hafa einhver skil milli löggjafarvalds og dómsvaldsins. Í Landsréttarmálinu urðu skilin þar á milli þó nokkuð óljós. Það eru til dæmi um bein áhrif sem eiga ekki að finnast. Því væri það skárra ef hér væru á ferðinni almennar lagabreytingar þó að þær yrðu gerðar með afturvirkum hætti. Þetta varðar réttindi sem fólk fær og það er í lagi að veita réttindi afturvirkt en ekki að taka þau afturvirkt af fólki.

Þó að þetta séu sértæk lög þá myndi ég vilja fá þessi ákvæði sem almennar lagagreinar í nokkurn veginn þessu formi, eftir því sem ég best fæ séð, og þess vegna get ég stutt málið þrátt fyrir aðra annmarka þar á.