150. löggjafarþing — 40. fundur,  4. des. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er kannski hollt í upphafi þessarar umræðu að minna sig á í hvers konar landi við erum að setja okkur samgönguáætlun. Við búum nefnilega ekki í neitt venjulegu landi. Við köllum það stundum dreifbýlt en raunveruleikinn er samt sá að við búum í hálfgerðu borgríki. Á stórhöfuðborgarsvæðinu búa 70–80% þjóðarinnar. Það er á pari við lönd eins og Panama, Kúveit, Djíbútí og Mongólíu. Það er ástæða fyrir því að hlutirnir eru með þessum hætti. Við erum fámenn þjóð í mjög stóru landi og fyrir 100 og eitthvað árum síðan var tekin pólitísk ákvörðun um það að ef við ætluðum að eignast sjúkrahús, háskóla, halda úti löggjafarvaldi, dómsvaldi og öflugum menningarstofnunum þá yrðum við að einbeita okkur að því að byggja það á einum stað. Þetta er sem sagt ekki náttúruleg þróun, hún er stýrð.

Nú er ég ekki að segja að það hafi verið óskynsamlegt á þeim tíma en ég er næstum því viss um að þegar sú ákvörðun var tekin var samhljómur um það, bæði á Alþingi eða meðal stjórnmálaflokka, embættisfólks og auðvitað landsmanna allra, að það þyrfti þá að vera með einhverjum hætti mögulegt að sækja þá þjónustu. Raunar var það þannig áður en samgöngur urðu jafn góðar og þær þrátt fyrir allt eru í dag að þá voru mikið af þessum stofnunum öflugri úti á landi. En þróunin hefur verið á þann veg að það hefur þótt heppilegra að byggja meira og meira hér. Mér skilst að Norðmenn skilgreini það sem hættulega byggðaþróun ef Ósló verður með um 25% eða meira af íbúum landsins. En við erum sem sagt komin í aðstöðu þar sem stórhöfuðborgarsvæðið er í um 70%. Árið 1900 voru í Reykjavík um 7% af landsmönnum. Árið 1915 var hlutfallið komið í 37%. Þá nefni ég auðvitað ekki Garðabæ og Mosfellsbæ og alla þá staði sem voru í rauninni bara þorp og varla það á þessum tíma. Ég held því að það megi í sjálfu sér alveg fullyrða að við séum komin hættulega nálægt þeim mörkum að ekki verði við neitt ráðið.

Við slíkar aðstæður er einmitt sérstaklega mikilvægt að samgönguáætlun taki á þeim hlut af því að auðvitað er það þannig að við öll sem búum utan þessa svæðis að jafnaði, um leið og við viljum hafa öflugan spítala, góðan háskóla, sinfóníu, dómsvald og löggjafarþing á þessum stað, viljum líka geta nýtt okkur það. Þess vegna er samgönguáætlun á Íslandi öðru fremur byggðaáætlun og aðgengi að höfuðborginni er forsenda þess að við getum lifað sátt í þessu landi. Höfuðborgin okkar þarf á sterkri landsbyggð að halda alveg á sama hátt og landsbyggðin þarf á mjög sterkri höfuðborg að halda. Ég held að við ættum í rauninni að geta glímt við þessar aðstæður og látið þær verða okkur til góðs en til þess þarf einfaldlega að leggja meira á sig heldur en birtist í samgönguáætlun hæstv. ríkisstjórnar.

Ég er t.d. fullkomlega sammála og styð samgöngusáttmála hér á höfuðborgarsvæðinu með styrkingu á borgarlínu vegna þess að ég held að það sé ekki við það umferðaröngþveiti búið sem við höfum séð síðustu árin, fyrir utan það að ég tek undir með hæstv. ráðherra þegar hann talar um samgöngumál og umhverfismál í sömu setningunni. Ég held að í hinu byggða umhverfi í þéttri, góðri borg, ekki síst þegar í henni búa 70% af heildarfjölda landsmanna, getum við náð einna bestum árangri í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta hef ég reyndar rætt nokkrum sinnum við hæstv. umhverfisráðherra og bent á að það séu hreinlega of litlar áherslur á þau mál í stefnu ríkisstjórnar. Það er því góðs viti að þessi samgöngusáttmáli sé gerður. Síðan verðum við að láta tímann leiða í ljós hvaða töfralausnir hæstv. ráðherra ætlar að draga fram þegar kemur að 60 milljarða framlaginu sem á að koma í gegnum gjaldtöku, en tökum það seinna.

Íbúar staða sem eru utan þessa áhrifasvæðis hafa átt í býsna mikilli vörn síðustu ár og áratugi og það sjáum við á íbúaþróun. Hún er vissulega ekki neikvæð á Eyjafjarðarsvæðinu en hún er allt of hæg miðað við hvernig hún ætti að vera á stað eins og t.d. Akureyri. Mér finnst það ótrúlega mikil vonbrigði að við sjáum ekki framsýnni og metnaðarfyllri tillögur til handa flugvellinum á Akureyri. Það er beinlínis talað um það í samgönguáætluninni að opna eigi fleiri gáttir inn í landið. Eitt af markmiðunum er að dreifa farþegum betur og eitt af markmiðunum er að opna fleiri gáttir inn í landið en það er ekkert verið að gera til að uppfylla það og það eru sár vonbrigði. Við horfum upp á það með fjölgun ferðamanna úr nokkur hundruð þúsund í nokkrar milljónir á nokkrum árum að á afmörkuðu litlu svæði á landinu er stunduð ofbeit. Það er hreinlega orðið hættulegt gagnvart náttúrunni hvernig ágangur á marga staði hér suðvestan lands er á meðan það eru vannýtt tækifæri úti um allt land. Þetta er beinlínis heimskulegt. Það sýnir sig í könnunum að 60% af þeim farþegum sem lenda á Akureyri eru að koma í annað skiptið, þannig að fólk vill sjá stærri hluta af landinu.

Það er skynsamleg leið að fjölga gáttunum og gera það almennilega vegna þess að við þurfum líka að hafa möguleika til að vaxa og dafna á þessum svæðum. Með því að verja ekki peningum til uppbyggingar Akureyrarflugvallar, ekki meira en 78 milljónum á fimm árum á meðan að heildarframlög til flugvalla eru um 36 milljarðar á fimm árum á öllu landinu, er beinlínis verið að taka bjargirnar af þessu fólki sem vill auðvitað fá að styrkja sig og byggja sig upp, fyrir utan það svo að möguleikarnir til að koma sér beint til útlanda er ekki bara spurning um lífsgæði heldur felst líka í því umhverfisvernd, hæstv. ráðherra. Það er ótrúlega mikið meira kolefnisspor sem það tekur að þurfa að lenda í Keflavík, keyra til Reykjavíkur og fljúga svo til Akureyrar heldur en að geta flogið beint. Þetta eru hlutir sem verður að hafa í huga.

Í stjórnarsáttmálanum er á fjölmörgum stöðum talað um bæði byggðaþróun og byggðamál og mér finnst það nokkuð skítt að Akureyrarflugvöllur, sem hefur kannski 40.000–50.000 manna upptökusvæði, sem er u.þ.b. það sama og Færeyjar hafa, njóti ekki meiri sanngirni. Ég vona svo sannarlega, af því að tími minn er að verða búinn, að umhverfis- og samgöngunefnd þingsins leggist á árar og greiði fyrir fjármögnun til flugvallarins á Akureyri. Að öðrum kosti verður ekki mikil ánægja með þetta frumvarp. Ég mun í síðari umr. fara víðar um það en mér fannst þetta vera eitt það mest sláandi í frumvarpinu og þess vegna ákvað ég að nota tíma minn nánast eingöngu í það.