150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[16:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að viðurkenna að menn geti gagnrýnt þetta fyrirkomulag. Það er þess vegna sem stend hér upp og geri það. Það er hluti af því sem ég fæ borgað alveg þó nokkuð af peningum fyrir að gera og mun halda áfram að gera, sér í lagi í ljósi eindregins stuðnings hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talar um að stjórnarskrá og kirkjujarðasamkomulaginu sé grautað saman. Þessi mál eru skyld og það er alvanalegt í ræðum að þingmenn ræði skyld málefni saman. Hv. þingmaður sagði líka að það skipti ekki máli að samningurinn væri lélegur og þar er ég ósammála hv. þingmanni. Mér finnst skipta máli að samningurinn sé í það minnsta á einhvern hátt rökréttur. Hann þarf ekki einu sinni að vera geðveikt góður, hann þarf bara að vera aðeins rökréttur.

Það er rétt hjá hv. þingmanni, og ég tek undir það, að það sé ekkert nýtt að ríkið styðji einhverja sem veita þjónustu eða hafa skyldur. Ég hef ekkert við það að athuga. Ég bendi á að Fríkirkjan í Reykjavík veitir líka þjónustu og hefur skyldur, Siðmennt einnig og fullt af trúfélögum. Það er ekkert óeðlilegt við það að ríkið borgi fyrir það sem ríkið kýs að kalla grunnþjónustu, segjum greftranir eða eitthvað því um líkt. Ég hef ekkert á móti því að ríkið fjármagni það en þá er sú þjónusta fjármögnuð og það er ekki það sem þetta samkomulag snýst um. Þetta samkomulag snýst um að tæmandi eignir, jarðir, voru seldar, eins og það er kallað, fyrir óendanlega hátt gjald vegna þess hvernig fyrirkomulagið er. Og það er það sem ég er, með leyfi hv. þingmanns og forseta, að gagnrýna.