150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[17:20]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir pælingar hans og svör. Mér finnst þetta áhugavert vegna þess að stór hluti af frumvarpinu snýst nákvæmlega um það að láta starfsmenn þjóðkirkjunnar ekki lengur vera ríkisstarfsmenn. Ríkisstarfsmenn þurfa að uppfylla stjórnsýslulög þegar þeir taka stjórnsýsluákvarðanir. Erum við að gera einhverja efnislega breytingu hvað þetta varðar? Þess vegna sagði ég að við þyrftum kannski meiri tíma því að kannski þyrftu sérfræðingar að geta upplýst okkur um þetta álitamál varðandi stjórnsýslulögin eða ekki. Þetta getur skipt miklu máli. En svo má ekki gleyma því að við erum ekki bara með skrifaðan stjórnsýslurétt, við erum líka með óskrifaðar reglur í stjórnsýslurétti og jafnræðisreglu og annað slíkt og að sjálfsögðu binda þau ákvæði sem finna má í stjórnarskrá presta eins og alla aðra. Í því samhengi er áhugavert að hafa það í huga.