150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[21:57]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða hér frumvarp til laga um stuðning við fjölmiðla. Ég tel að styrkja þurfi litlu fjölmiðlana úti á landi sem eru að reyna að halda uppi smáupplýsingagjöf um sveitarfélögin og nágrannasveitir en mig langar að spyrja um ákvæðið um 48 vikur. Þá eru bara fjórar vikur sem viðkomandi eiga frí. Það er yfirleitt einn, í mesta lagi tveir, á þessum fjölmiðlum og mér finnst þetta mjög knappt vegna þess að útgáfa dettur oft út yfir jól. Ég er að velta fyrir mér hvort 45–46 vikur hefðu ekki verið nóg.

Annað sem ég er að spá í er hvort ekki sé kominn tími til að byrja á þeim enda að taka RÚV út af auglýsingamarkaði og skipta RÚV upp. Þarf RÚV þá stóru umgjörð sem það er með, t.d. margar sjónvarpsrásir og útvarpsrásir? Það er alltaf verið að tala um öryggisþáttinn en við höfum séð að það gildir ekki. Ég held að það væri nær að hafa eina sjónvarpsrás og eina útvarpsrás hjá RÚV, taka það af auglýsingamarkaði, byrja á því í staðinn fyrir að fara að dæla peningum í þetta. Þeir sem eiga fjölmiðla núna eru, eftir því sem ég best sé, mjög vel efnaðir menn og virðast geta rekið þá ár eftir ár með bullandi tapi. Ég sé ekki hvers vegna við ættum að styrkja stóra fjölmiðla með opinberu fé.