150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

fjölmiðlar.

458. mál
[22:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er oft þannig að þegar Píratar mæta á sjónarsviðið og ætla að fara að tala um einhver vandamál sem eru tiltölulega nýtilkomin vegna tæknibyltingarinnar er meira rætt um vandamál og skýringar á því hvers vegna ekki sé hægt að gera eitt eða annað frekar en að koma með konkret lausnir á vandanum sem blasir við. Í því samhengi segi ég að markmiðið með þessu frumvarpi finnst mér mjög gott og jákvætt, þ.e. að efla sjálfstæða fjölmiðla. Ég hef aftur á móti nokkrar efasemdir um þessa nálgun en býð engar sérstakar lausnir í sjálfu sér á móti. Það er tvennt, annars vegar hef ég áhyggjur af því sem ég hef nefnt áður, sjálfstæði fjölmiðlanna. Ég heyrði alveg svör hæstv. ráðherra en með fullri virðingu þykja mér þau ekki duga til. Þegar ríkisvaldið ákveður að setja skilyrði fyrir því að láta einhvern lögaðila fá peninga verður sá lögaðili eðli málsins samkvæmt háður því að uppfylla þau skilyrði og það finnst mér óheppilegt þegar kemur að þessum tiltekna anga samfélagsins sem er stundum kallaður fjórða valdið, fjölmiðlum.

Hitt er náskylt sem ég hef ekki síður áhyggjur af, að mér finnst með þessu frumvarpi þessi téðu skilyrði þannig að þau setji miðlana í tiltekið mót. Mér finnst gamlir fjölmiðlar fá forskot á nýja. Það er skilyrði um að fréttir skuli vera daglegar. Það er auðvelt að koma fram með dæmi sem brjóta upp þetta mynstur. Annað er að gert er ráð fyrir tilteknum starfsmannafjölda, þremur eða einum eftir atvikum, og gerð krafa um fjölbreytt efni og sjálfstæða frétta- og heimildaöflun. Fyrir utan að mér finnst óljóst hvað þessi orð þýða nákvæmlega er frekar auðvelt að láta sér detta í hug einhver viðskiptamódel sem myndu ekki passa við þetta módel en væru þess virði að prófa. Það eru einmitt þau sem ég myndi vilja sjá stuðning við, ekki frá ríkinu, en að þau yrðu einhvern veginn að veruleika. Það er það sem ég hef áhyggjur af hérna, að ef þetta er sniðið í eitthvert fyrirframákveðið mót (Forseti hringir.) óttast ég að það sé bara verið að halda einhverju gömlu viðskiptamódeli í öndunarvél þegar þróunin felur í sér að eitt klikkar og annað kemur í staðinn.