150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þegar svona óveður gengur yfir eigum við sem samfélag allt undir því að það séu hröð og öflug viðbrögð hjá vel þjálfuðum og vel útbúnum viðbragðsaðilum. Auðvitað er það lykilatriðið í því að við komum vel undan storminum. En eins og við vitum þá eru svona stormar eitthvað sem við getum séð fyrir upp að ákveðnu marki, a.m.k. að þeir muni gerast, kannski ekki hvenær nema með skemmri fyrirvara. Þá skiptir máli að vera vel viðbúinn því sem samfélag. Þá fer maður að velta því fyrir sér af hverju varaaflsstöðvar voru fjarlægðar á þeim stöðum þar sem tvær tengingar voru komnar til byggða. Er til staðar einhvers konar viðmið um það hvernig eigi að tryggja rafveitu eða er þetta sjálfstætt mat á hverjum stað? Og sömuleiðis þegar áætlanir eru gerðar hjá ríkinu, hvort sem það er samgönguáætlun eða almannavarnaáætlanir eða hvað svo sem það er, þá veltir maður fyrir sér hvort það sé metin fjárfestingarþörf í búnaði og öðru sem þarf til þess að geta tryggt neyðarviðbrögð þegar neyðarástand kemur upp.

Sömuleiðis velti ég fyrir mér hvort símafyrirtæki þurfi ekki í auknum mæli að vera hluti af almannavarnaáætlun og hafa skilgreint hlutverk. Þau hafa náttúrlega ákveðið hlutverk nú þegar en vegna tæknibreytinga er ástandið kannski orðið heldur erfiðara að sumu leyti.

Allt eru þetta í rauninni mjög einfaldar spurningar. Ég er ekki að fara út í erfiðu spurningarnar hér og nú vegna þess að í grunninn þurfum við bara að tryggja það að þegar vondir hlutir gerast, þegar stormar ganga yfir, höfum við leiðir til að halda grunnkerfum gangandi. Síðan getum við rætt um flóknu hlutina eftir það.