150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:55]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar um óveðrið sem gekk yfir í síðustu viku, þakka þeim sem voru fremstir í röðinni þegar kom að því að bregðast við því óveðri. Þar er auðvitað fyrst að nefna fulltrúa Landsbjargar, sem eru nokkrir með okkur í salnum í dag. Ég vil sérstaklega taka fram það sem ég tel þakkarvert í þeim efnum og það er sú fyrirhyggja sem menn hjá Landsbjörgu sýndu með því að flytja tæki og tól norður í land þar sem fyrirséð var að ástandið yrði verst, sem ég held að mörg okkar og margir sem síðar hafa þurft að bregðast við hefðu mátt læra af. Sömuleiðis langar mig að þakka starfsmönnum Rariks sem hafa verið gerðir út af örkinni í hinum eiginlegu viðgerðum um landið þvert og endilangt. Það hefur verið langur vinnudagurinn hjá þeim undanfarna viku og fjarri því að séð sé fyrir endann á þeirri törn.

Eins og þingið þekkir var samþykkt hér í morgun skýrslubeiðni Miðflokksins þar sem er reynt að ná utan um þær spurningar sem vakna þegar svona ástand gengur yfir. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að okkur geti hlotnast að læra af því ástandi sem hér skapaðist. Það er auðvitað með miklum ólíkindum að heilu byggðirnar séu rafmagnslausar allt að sólarhringum saman og nú berast fréttir af því að byggðir sem þegar voru komnar í tengingu, eins og í Vestur-Húnavatnssýslu, séu dottnar út aftur. Ég held að það sé mikilvægast núna að við lærum með einum eða öðrum hætti af þessu en á sama tíma horfumst í augu við þau vandamál sem kunna að hluta til að hafa skapað þetta. Það er ekkert nýtt. Það hafa orðið vond veður á Íslandi áður og það munu verða vond veður á Íslandi aftur. Við öll hér inni erum meðvituð um að ástand raforkukerfisins er ekki með þeim hætti sem við helst vildum, mjög fjarri því. Það þarf ekki annað en að vísa í skýrslu Samtaka iðnaðarins frá 2017 þar sem þetta er rammað inn býsna vel og kostnaður greindur, þannig að við vitum hvaða verkefni stendur fyrir framan okkur.

Mér hefur sem betur fer þótt aðeins draga úr því en fyrst eftir að óveðrið skall á og þessi miklu eftirköst urðu þótti manni þeir sem fengu míkrófóninn í andlitið reyna að benda í aðra átt en til sjálfs sín. Það hefur dregið úr því en það er engu að síður þannig. Við sjáum Landsnet kvarta yfir því að leyfisveitingaferli hafi dregist von úr viti. Gagnvart tilteknu dæmi sem var nefnt í því samhengi kom sveitarfélagið Skagafjörður fram og sagði: Þetta er ekki svona, það hefur ekki staðið á okkur. Okkur þarf að hlotnast að finna leið til þess að þau verkefni sem við ætlum að koma í gegn hvað uppbyggingu innviða varðar komist hraðar á dagskrá og til framkvæmda. Það getur ekki verið að þegar stjórnmálamenn fyrir 15, plús/mínus, árum síðan voru í þessum sal að ramma inn það kerfi sem við vinnum eftir til að við göngum forsvaranlega vel um náttúruna hafi hugsunin verið sú að það yrði varla hægt að framleiða rafmagn, varla hægt að leggja veg og alls ekki flytja rafmagn. Það getur ekki hafa verið meiningin hjá þeim sem lögðu grunninn að því umhverfisverndarregluverki sem við búum við. Ég held að við öll sem hér erum inni séum umhverfisverndarsinnar í eðli okkar og trúum á að við eigum að skila náttúrunni og landinu í betra ástandi til afkomenda okkar en við fengum það í hendurnar. En við verðum að geta, eins og ég segi, komist áfram með framkvæmdir sem eru nauðsynlegar hvað innviði landsins varðar og sátt er um hér og búið að taka ákvörðun um í mörgum tilvikum á Alþingi. Við verðum að komast áfram því að að öðrum kosti bíðum við bara eftir að næsta óveður gangi yfir og það verði viðlíka hörmungar sem á okkur dynja.

Ég vil líka segja að það hefur verið þyngra en tárum tekur að fylgjast með ástandinu víða um landið, en það eru líka landsvæði sem var ekkert mikill fréttaflutningur af. Það eru landsvæði sem eru býsna vön því að þurfa að stinga varaaflinu í samband, sem eru vön því að þurfa að treysta dálítið á sjálf sig þegar óveður ganga yfir og bilanir verða í kerfunum. Þegar kemur að þeim aðgerðum sem grípa þarf til og gripið verður til er mikilvægt að við gleymum ekki þeim svæðum.

Eitt atriði sem mig langar til að koma inn á er fjarskiptahluti eftirmálanna allra. Það er með miklum ólíkindum að fylgjast með hvernig, ég leyfi mér að segja fjarskipti, sem í dag eru orðin jafn nátengd rafmagni og raunin er, duttu fullkomlega út. Það eru fæstir í dag með gamla góða fastlínusímann tengdan kopar, þeim fækkar alla vega óðfluga, og þegar sú er staðan má segja með hóflega litlum ýkjum að íbúar í sveitum landsins séu komnir langleiðina aftur í móðuharðindin þegar þeir sem eiga rafmagnsútvarp geta hlustað á fréttir en þar er þeim síðan sagt að fara á netið og leita sér upplýsinga um stöðu mála og framgang viðgerða. Þegar sem mest gekk á var ekki neinar upplýsingar að sækja. Fólk í sveitum landsins sat innilokað á heimilum sínum og mátti sér í raun enga björg færa því að þegar rafmagnið er farið af eru fjarskiptin farin, þá eru dælurnar farnar í brunnum, þá eru róbótar farnir í tengslum við kúabúin o.s.frv. Okkur stendur því ekkert annað til boða en að gera gangskör að því að laga þá stöðu alla. Það verður ekki gert nema með öflugri pólitískri forystu og hún verður að koma frá okkur stjórnmálamönnum hvers tíma. Ég held svona á léttari nótum, þó að það sé auðvitað fátt broslegt í þessu, að rafbílavæðingu Norðurlands hafi verið frestað um ófyrirséðan tíma með þeirri uppákomu sem þarna varð. En ég held að við verðum samt að horfa til þess að innviðirnir verða að komast á þann stað að við getum tekið á móti ofsaveðrum sem þessum án þess að eiga á hættu að samfélagið allt á svæðunum fari á hliðina og þau færist áratugi ef ekki árhundruð aftur í tímann um daga eða viku hríð.

Ég vil fagna því að þessi átakshópur ráðuneytanna hafi verið settur saman og vænti mikils af honum á þeim knappa tíma sem honum er úthlutað. Ég dreg ekki í efa að þar sé fullur vilji til að draga fram þau verkefni og þær aðgerðir sem þarf að grípa til og það er vel að ríkisstjórnin ætli sér ekki langan tíma í það. En fyrst og fremst vil ég leggja áherslu á að við lærum af því sem hefur gerst og leitum allra leiða til að draga úr þeim aðstöðumun sem kristallaðist svo vel þessa daga á milli suðvesturhornsins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar.