150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

mótun stefnu Íslands um málefni hafsins.

461. mál
[17:11]
Horfa

Flm. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni ágætlega fyrir innihaldsríka og fróðlega ræðu eins og vænta mátti og þótt ekki væri nema bara fyrir þessa einu ræðu held ég að það hafi sannað gildi sitt að færa umræðu um málefni hafsins inn á vettvang þingsins.

Að vísu fjallaði ég nokkuð í ræðu minni um þá stefnu sem hv. þingmaður nefndi, Hafið, sem er frá árinu 2004. Ég nefndi eitt og annað sem ég tel að mætti endurskoða í ljósi aukinnar þekkingar okkar á þessum málefnum sem ekki lá fyrir á þeim tíma og ýmis breytt viðhorf. Strax árið 2015 sá þáverandi þingmaður en núverandi hæstv. forsætisráðherra ástæðu til að kalla eftir slíkri endurskoðun og stefnumótun Alþingis í málefnum hafsins þegar hún spurði þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Braga Sveinsson, 19. mars 2015 hvað liði stefnumótun í málefnum hafsins. Varð eitthvað fátt um svör en hann boðaði að hann myndi vinna að því máli í samráði við þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigrúnu Magnúsdóttur. Það má segja að þessi stefnumótun hafi dregist í a.m.k. fimm ár.

Ég leyfi mér að vitna í spurningu hæstv. forsætisráðherra frá 19. mars 2015 þar sem hún segir, með leyfi forseta:

„Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Er einhver stefna til af hálfu ráðuneytisins eða í undirbúningi um verndun hafsins, ekki bara um nýtingu þeirra stofna sem þar er að finna, sem eru okkur gríðarlega mikilvægir, heldur um loftslagsbreytingar, sem munu hafa áhrif á okkur eins og aðra, og munu ekki síst birtast í hafinu. Þá er ég að tala um súrnun sjávar. Ég er að tala um hækkandi hitastig sjávar.“

Og hæstv. forsætisráðherra heldur áfram. Hún virðist í ræðu sinni ekki telja að sú ágæta stefna Hafið frá árinu 2004 hafi mikið gildi þegar kemur að því að meta þessi mál. Ég legg sem sagt til að mótuð verði heildarstefna í málefnum hafsins sem taki mið af fleiri þáttum og fleiri álitamálum sem blasa við okkur en kröfugerð að réttindum fiskveiða eins og kannski Íslendingar hafa frekar einbeitt sér að á alþjóðavettvangi.

Mér láðist að geta þess áðan í kapphlaupinu við að ljúka ræðunni að ég vil fara fram á að þessi þingsályktunartillaga verði send til umhverfis- og samgöngunefndar. Að því búnu vil ég enn og aftur þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir innihaldsríka og góða ræðu um þetta málefni og vonast til að þingheimur taki þessu máli vel.