150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

jafnrétti til náms óháð búsetu.

[16:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því eins og aðrir hér á undan mér að þakka hv. málshefjanda, Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að taka upp þessa þörfu umræðu og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að taka þátt í henni með okkur.

Við tölum um jöfn tækifæri nemenda til náms óháð búsetu. Það er frábært að heyra um þá framþróun sem á sér stað í tæknilegu tilliti en það breytir ekki þeirri staðreynd að við ættum ekki bara að tala um jöfn tækifæri nemenda til náms óháð búsetu heldur líka óháð efnahag. Staðreyndin er sú að meðal okkar eru ungmenni sem eru snillingar en hafa aldrei fengið þau tækifæri og fá ekki enn að leita sér þeirrar menntunar sem hugur þeirra stendur til. Ég vildi líka gjarnan draga inn í þessa umræðu tækifæri þeirra sem eru ólæs eftir tíu ára nám í grunnskóla, sem er yfir þriðjungur nemenda. Þau hafa aldrei tækifæri til að nýta sér framhaldsnám því að þau eiga þangað ekkert erindi í ljósi þess að þau eru ólæs eftir tíu ára nám í grunnskóla.

Fyrst hæstv. menntamálaráðherra er hér, og ég veit að hún hefur ekki síður áhyggjur af þessu en ég, finnst mér að við eigum kannski að byggja grunninn betur og taka það virkilega alvarlega. Við verðum að horfast í augu við það.

Ég hef stundum hugsað með mér að þetta væri eitthvert grín. Er raunverulega hægt að vera tíu ár í grunnskóla án þess að geta lesið? Er þriðjungur nemenda enn illa læs eða ólæs eða með lítinn lesskilning eftir tíu ára veru í grunnskóla?

Við erum að gera ýmislegt og tæknileg framþróun leiðir vonandi til þess að efnahagur vegi ekki jafn þungt í framtíðinni, þegar hægt verður að færa nám meira inn í heimabyggð svo að foreldrar geti lengur haldið utan um ungviðið sitt í heimabyggð þar sem aðgengið er þá til staðar í gegnum tölvukerfi og annað slíkt.

Það er í mörg horn að líta en umræðan er sannarlega þörf.