150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

stafræn endurgerð íslensks prentmáls vegna þingsályktunar nr. 20/148.

95. mál
[15:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Þetta hefur verið svo jákvæð umræða að ég fer nú að velta fyrir mér hvort það sé eitthvað að hér, hvort ég hafi gert einhver mistök með því að ná þessari jákvæðni og samheldni inn í þennan sal með umræddri skýrslubeiðni. En ég held að svo sé ekki. Ég held að það sé mjög fínt að við getum náð saman um mál af þessu tagi og reyndar eru þau miklu fleiri en við oft höldum og viljum vera láta, sérstaklega ef við rýnum í kjarna málsins en ekki endilega hvernig við höldum að við komum út í umræðum út á við.

Ég þakka aftur hæstv. um ráðherra fyrir þá vinnu sem hér hefur verið unnin við þessa góðu skýrslu og að sjálfsögðu skýrsluhöfundum. Það verður mjög áhugavert að fylgjast með þróun málsins. Hér hafa hv. þingmenn komið með margar ágætisathugasemdir. Sjálfur mun ég seint þykjast tæknilega sinnaður, hvað þá þannig að ég geti sagt til um hvernig best sé að gera. En ég velti samt fyrir mér spurningum varðandi IP-tölur og fleira. Við höfum kannski í huga að ætli séu ekki um 300.000 Vestur-Íslendingar sem enn geta mælt á íslensku sem hefðu áreiðanlega margir hverjir gaman af að glugga í íslenskar bækur, en ég treysti bara því fólki sem skrifar þessa skýrslu og sem mun væntanlega í áframhaldandi starfshópi sem hér er boðaður finna útfærslurnar.

Að lokum langar mig sérstaklega í sjálfhverfni minni þakka hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur fyrir að minnast á Norðurslóð og lesa upp úr því ágæta tímariti. Það stendur hjarta mínu nærri því að karl heitinn faðir minn, Óttarr Proppé, er einn af þremur stofnendum þess tímarits ásamt Jóhanni Antonssyni og Hirti Eldjárn Þórarinssyni. En það er gott að við getum rætt það sem við erum sammála um. Hér hefur margt gott verið sagt um íslenskar bækur enda eru bækur almennt upphaf og endir alls.