150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:55]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þetta mál neitt mikið, ætla aðeins að fylgja einhverjum hugrenningum mínum í sambandi við þessa þingsályktunartillögu sem hefur komið fram núna í nokkuð góðri umræðu og andsvörum. Menn hafa áhuga á þessu máli um kolefnismerkingu og það kom m.a. fram í máli manna í andsvörum hvort það hefði ekki mátt vera eitthvað meira í málinu. En það kom mjög vel fram í svörum hv. þm. Þorgríms Sigmundssonar að hann hefði metið það svo og þeir sem unnu að þessu máli, og sá sem hér stendur er líka einn af flutningsmönnunum, að það væri vænlegra til árangurs að hafa þetta hnitmiðað og frekar einfalt.

Það sem ég myndi vilja bæta við í umræðunni um þessi mál er að við Íslendingar myndum geta verið sjálfbærir í matvælaframleiðslu hér heima, að því marki að geta fætt okkur sjálf á eigin framleiðslu á matvælum, m.a. vegna þess að íslenskur matur er náttúrlega frábær vara en ekki síst og kannski aðallega í mínum huga núna vegna öryggissjónarmiða. Við værum sjálfbær í matvælaframleiðslu m.a. vegna loftslagsmála og líka vegna einhvers sem gæti komið upp á í náttúrunni sem yrði þess valdandi að það yrði erfitt með aðdrætti erlendis frá, einhverjar náttúruhamfarir, styrjöld eða eitthvað, og upp kæmi sú staða að við yrðum að vera sjálfum okkur nóg í matvælaframleiðslu, sem ég hef fulla trú á að við getum nú þegar.

Í umræðu um svona merkingar kemur líka upp í huga minn hvatning til bænda, bæði í kjötframleiðslu og eins í grænmetisframleiðslu, að selja beint frá býli m.a., þar sem hægt er að sjá uppruna vörunnar. Þá kemur margt upp í hugann eins og leyfi til heimaslátrunar og margt slíkt sem mér finnst vera komin ansi breið sátt um hjá stjórnmálaflokkum. Við þurfum að opna fyrir þann möguleika að það sé hægt að slátra heima þannig að það uppfylli öll lög og reglur. Það hefur verið þannig, af því að þetta er innleiðing Evrópureglugerðar, að við erum svolítið kaþólskari en páfinn í því að fara eftir öllum þeim reglugerðum sem þar eru og verðum svo vör við það þegar við förum erlendis að þar er ekki farið svo grannt eftir því eins og við gerum.

Það er í raun og veru annað mál en ég fagna þessari tillögu og ég geri mér vonir um að hún eigi eftir að fá góða umfjöllun í nefndinni og fá umsagnir þannig að ég ætla ekkert að hafa þetta mál lengra að sinni.