150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Atvinnuveganefnd fékk í morgun fína kynningu á nýsköpunarstefnu Íslands til 2030. Hún er vissulega metnaðarfull og mikilvægt að fylgja henni eftir. Það eru mikil tækifæri í nýsköpun og þau eru mörg á landsbyggðinni, það eru auðlindir á landsbyggðinni, bæði til lands og sjávar og í matvælaframleiðslu, snyrtivörum, lyfjum, fæðubótarefnum og alls kyns fullvinnslu afurða hátæknifyrirtækja. Þetta þekkjum við, fyrirtæki sem hafa farið í uppbyggingu og ná góðum árangri eins og Skaginn á Akranesi, Kerecis á Ísafirði og önnur fyrirtæki sem eru í uppbyggingarfasa, Þörungaklaustur á Reykhólum. Villimey á Tálknafirði, Biopol á Skagaströnd og Pure Natura á Sauðárkróki. Allt eru þetta fyrirtæki sem eru að vaxa og dafna og við þurfum að styðja við. Það þarf að vera stuðnings- og samkeppnisumhverfi sem er í lagi og innviðir í lagi og það þarf að beina fjármagni til frekari rannsókna og frumkvöðla frekar en í umsýslu og uppbyggingu eins og hæstv. ráðherra nefndi. Það vantar þolinmótt fjármagn og að gera rekstrarregluverkið samræmdara til að geta hafið rekstur sprotafyrirtækja.

Fjármagn til rannsókna og frumkvöðla hefur verið stóraukið. En það þarf líka að skila sér út á landsbyggðina eins og hér hefur verið nefnt.

Ég held að margir þættir þurfi að spila saman til að tryggja frekari uppgang rannsókna og nýsköpunar hér á landi. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt mikla áherslu á uppbyggingu. Það mætti skoða leiðir til að tryggja að rannsóknar- og nýsköpunarstyrkir renni frekar til landsbyggðarinnar og hvetja til þess að fólk frá öllum landshlutum sæki um styrki. Skoða mætti t.d. að eyrnamerkja tiltekna hluta styrkja hverjum landshluta.

Ísland býr yfir miklum mannauði, verkviti og hugviti, og við þurfum að nýta það sem best og nýta líka skólakerfið okkar til að örva frumkvöðla og nýsköpun. Þar höfum við líka mikil tækifæri, að byrja strax í skólakerfinu með þá hugsun.