150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

stuðningur við rannsóknir og nýsköpun utan höfuðborgarsvæðisins.

[11:31]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu og gegnu umræðu. Mér finnst eiginlega augljósa verkefnið hér vera að stjórnvöld tryggi jafnræði hvað varðar tækifæri til að sækja í stuðningskerfið allt og hvetji stofnanir og einstaklinga um land allt til að sækja meira í rannsókna- og nýsköpunarsjóði. Það er jú skylda stjórnvalda að byggja upp vísinda- og nýsköpunarstarf um land allt. Við landsbyggðarmenn, eins og ég myndi vilja segja, erum nú alls ekkert verr gefnir en fólkið á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil meina það að við ættum að sitja við sama borð hvað það varðar. Fólkið úti á landi hefur líka áhuga á því að taka þátt í velmeguninni og t.d. ferðamannaflæðinu sem hefur verið hér. Margir hverjir eru að reyna að skapa sér afkomu og koma með hugmyndir að litlum fyrirtækjum en oft og tíðum er mjög erfitt að ná í fjármagn.

Ég tel því að þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi sagt það á hringferð um landið að hún hafi hvatt alla til að sækja í þessa sjóði þá sé í fyrsta lagi hægt að einfalda allt regluverkið í kringum umsóknir í sjóðina. Fyrir utan það er ekki nóg að fara hringferð og segja þetta hér og þar, þótt viljinn sé góður, heldur verður að auglýsa það betur. Það verður að hvetja fólk og leiðbeina því. Það er eins og þessu sé haldið svo undir teppinu að þeir einstaklingar sem hefðu gjarnan viljað sækja í sjóðina vita ekki einu sinni hvernig þeir eiga að fara að því. Þeir eiga erfitt með það og þeir þurfa að fá hjálp. Miðað við þann metnað sem við leggjum í framtíðina er það núna á valdi stjórnvalda að jafna þetta úti um allt land og aðstoða þá sem þurfa á að halda við að sækja um.