150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Á fundi atvinnuveganefndar í morgun kom Sveinn Margeirsson, fyrrverandi forstjóri Matís, fyrir fundinn og flutti okkur hugmyndir sínar um örsláturhús og þau tækifæri sem þar eru, bæði fyrir sauðfjárbændur og neytendur. Margt kom þar fram, margir góðir punktar. Gæði íslenska lambakjötsins hafa verið ótvíræð og með því að nýta okkur afurðir sauðkindarinnar erum við að nýta styrkleika okkar sem þjóð og auðlindir landsins og við þurfum ekki að flytja inn fóður til eldis heldur er þetta allt heimagert. En það er staðreynd að við erum að tapa niður gæðum lambakjötsins með nýjum sláturaðferðum. Fækkun afurðastöðva í landinu hefur valdið því að sauðfénu er ekið lengri vegalengdir sem veldur auknum streituhormónum í kjötinu, auk þess sem stærri sláturhús kalla á að kjötið fari hraðar í gegnum ferlið. Þar með hefur sú aðferð og handverk og þær hefðir sem skiluðu mestum gæðum kjötsins tapast en það var að láta kjötið meyrna og hanga eftir slátrun áður en það færi í frost. Mikill áhugi er meðal bænda að geta komið á viðskiptum á heimaslátruðum afurðum. Með því fyrirkomulagi gætu þeir margfaldað virðisaukann af framleiðslu sinni og boðið neytendum aukin gæði.

Tilgangur matvælalaga er að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessu skal náð með innra eftirliti, áhættugreiningu, rekjanleika afurða og varúðarreglum svo dæmi séu nefnd.

Virðulegi forseti. Með því að greiða fyrir uppbyggingu örsláturhúsa og byggja undir þá starfsemi erum við alls ekki að fara á svig við tilgang matvælalaganna. Sú þekking sem íslenskir bændur búa yfir og öruggt eftirlit getur tryggt matvælaöryggi neytenda. Það er jafnvel hægt að haga eftirlitinu með nútímatækni eins og með rafrænu eftirliti. Nú þegar hafa bændur strangt skýrsluhald um skepnur sínar frá burði til slátrunar og því er góður gagnagrunnur til um hvert lamb frá upphafi til enda. Við getum því alveg haldið þessu áfram þó að við þurfum ekki að breyta miklu til þess.