150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

störf þingsins.

[14:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni hér gríðarlega alvarlegt atvik sem átti sér stað í Hamraborg í Kópavogi á mánudagskvöld í síðustu viku. Þar veittist hópur unglingspilta á aldrinum 15–18 ára að 14 ára pilti. Árásin var einstaklega fólskuleg, hrottaleg og gróf, enda var drengurinn kýldur og sparkað var í hann liggjandi bæði í höfuð og líkama. Drengurinn sem varð fyrir árásinni var fluttur á slysadeild til aðhlynningar og hefur verið í miklu áfalli eftir árásina og ekki þorað að fara út úr húsi.

Það er margt sem vekur óhug hjá manni við þennan atburð, kannski ekki síst hversu alvarleg og gróf árásin var af hálfu mjög ungra drengja. Það sem vekur líka mikinn óhug er að drengurinn var yngri en allir árásarmennirnir og er af erlendum uppruna. Við sem samfélag þurfum að taka þessa hrottalegu árás á dreng af erlendum uppruna mjög alvarlega. Skólayfirvöld, barnaverndaryfirvöld sem vinna nú í málinu, lögregla og við öll þurfum að bregðast við af mikilli festu til að gefa mjög skýr skilaboð um að svona ofbeldi verði aldrei liðið. Það verður að taka á þessu einstaka máli til að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig því að svona hryllileg atvik geta nefnilega verið upphafið að kerfisbundnu útlendingahatri sem birtist með óvægnum og ómanneskjulegum hætti. Hatur af því tagi getur verið lífshættulegt eins og við sáum hér gerast við Austurvöll sumarið 2018.

Ég velti því fyrir mér hvort lögregluyfirvöld telji sig þurfa að fara betur yfir verklag innan sinna raða til að vera sem best í stakk búin til að taka á svona árásum því að ef það er rétt hjá föður drengsins sem hann hefur sagt frá í fjölmiðlum, að lögregla hafi ekki trúað honum fyrst og staðhæft við hann að sonur hans hafi sjálfur átt upptökin að árásinni, þarf lögregla höfuðborgarsvæðisins að útskýra það strax.

Um leið og ég sendi drengnum og fjölskyldu hans bata- og stuðningskveðjur vil ég endurtaka orð Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors í tómstunda- og félagsmálafræði við menntavísindasvið Háskóla Íslands, sem hafði þetta að segja í fjölmiðlum um þessa fólskulegu árás og um það hvers vegna enginn sem var vitni að árás hópsins skarst í leikinn til að stöðva ofbeldið sem drengurinn var beittur, með leyfi forseta:

„Í eineltismálum þá grípa áhorfendur allt of sjaldan inn í og því þurfum við að breyta. (Forseti hringir.) […] Við þurfum sem samfélag að skipta okkur oftar af. Að sjálfsögðu í svona stórum málum en líka í smærri málum. […] Það er svo mikilvægt að hætta þessu hiki sem er innra með okkur (Forseti hringir.) þegar kemur að því að skipta okkur af og fá þetta bein í nefið sem maður þarf í stórum og litlu málum.“

Ég hvet alla (Forseti hringir.) hlutaðeigandi sem vinna að þessu máli til dáða og að senda mjög skýr skilaboð.