150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum um fjárstuðning til minni rekstraraðila. Ég velti því fyrir mér að þegar við setjum í kassa þessa styrki og lán og brúarlán og allt þetta þá lenda alltaf einhverjir fyrir utan kassann. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra með einhverjar varaaðgerðir fyrir þá sem lenda þarna fyrir utan? Við vitum að það verða einhverjir. Það hlýtur að vera mesta skelfing í þessu ástandi að standa allt í einu uppi algjörlega tekjulaus og vita ekkert hvort maður fái einhverjar tekjur, geta ekkert gert eða leitað. Þeir sem lenda í þessu fara nú varla að hringja í 1717, hjálparsíma Rauða krossins, en er einhver í ráðuneytinu sem þeir geta leitað til, sem skráir og fylgist með og er tilbúinn að grípa þessa aðila? Annars erum við bara að henda þeim fyrir björg. Ég spyr bara: Hvernig ætlið þið að tækla það? Vegna þess að það væri þá hægt að bjarga þeim seinna.