150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[18:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum í þessu tiltekna þingmáli fyrst og fremst að horfa til rekstraraðila, til þeirra sem hafa verið í rekstri en það geta verið einstaklingar í rekstri á eigin kennitölu. Ég fékk t.d. fyrirspurn í gær frá manni sem spurði mig fyrir hönd dóttur sinnar, sem starfar á hárgreiðslustofu og leigir þar aðstöðu og er með rekstur á eigin kennitölu, hvort þessi úrræði myndu ná til hennar þar sem hún væri ekki með hlutafélag eða neinn slíkan búning utan um sinn rekstur. Og svarið við því er já. Einstaklingar geta, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, sótt stuðning. Ég tel að við séum að ná mjög vel til einstaklinga sem hafa tímabundið orðið að loka rekstrinum eða hafa orðið fyrir skakkaföllum og þurfa á stuðningi að halda. Mér finnst að úrræðið tali vel til þessara aðila. Það hafa fleiri haft samband við mig sem áttu jafnvel ekki von á því að við værum að horfa til svona lítilla rekstrareininga. Það er fólk t.d. í heilbrigðiskerfinu sem sér að það mun geta notað þessi úrræði.