150. löggjafarþing — 92. fundur,  22. apr. 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun.

727. mál
[20:09]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Með frumvarpinu er lögð til tímabundin breyting á lögunum sem felur í sér að seljendum pakkaferða verði heimilt að endurgreiða ferðamönnum með inneignarnótum vegna þeirra greiðslna sem þeir hafa innt af hendi vegna pakkaferða sem hefur verið aflýst eða þær afpantaðar á grundvelli óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Heimildin gildir fyrir ferðir sem áttu að vera farnar á tímabilinu 15. mars til og með 30. júní nk. Heimild ferðaskrifstofu til að endurgreiða ferðamönnum í formi inneignarnóta er þannig tímabundin og felur í sér frestun á endurgreiðsluskyldu þeirra í 12 mánuði. Að 12 mánuðum liðnum geta ferðamenn sem hafa ekki nýtt inneignarnótuna til kaupa á nýrri pakkaferð fengið inneignarnótuna endurgreidda.

Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram að inneignarnóta skuli greinilega vera inneign vegna pakkaferðar. Hún skal að lágmarki vera að sömu fjárhæð og þær greiðslur sem ferðamaður hefur innt af hendi fyrir pakkaferðina. Mikilvægt er að kveða á um þessi skilyrði enda eru þau forsenda þess að inneignarnótan falli undir tryggingavernd pakkaferðatrygginga. Í því sambandi er einnig rétt að vísa til tilkynningar á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, frá 23. mars sl., þar sem fram kemur að inneignarnótur vegna pakkaferða falli undir pakkaferðatryggingarnar og leiðbeiningar Neytendastofu sem birtust á heimasíðu stofnunarinnar sama dag um efni og innihald inneignarnóta svo að þær falli undir tryggingavernd pakkaferðatrygginganna.

Með þessu er tryggt að inneignarnótur sem gefnar eru út á grundvelli þeirrar tímabundnu heimildar sem lögð er til með frumvarpi þessu njóti verndar pakkaferðatrygginga líkt og allar aðrar greiðslur vegna pakkaferða.

Frumvarpið er lagt fram í ljósi þess ástands sem skapast hefur vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Ástandið er alvarlegt og án fordæma og mikilvægt fyrir stjórnvöld að koma til móts við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Ef ekkert er að gert er fyrirsjáanlegt að til fjölda gjaldþrota muni koma. Frumvarpinu er þannig ætlað að draga úr hættu á gjaldþrotum og veita fyrirtækjunum svigrúm til að komast yfir erfiðasta hjallann sem fram undan er en endurgreiðsluskylda innan 14 daga, líkt og kveðið er á um í lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, leggst sérstaklega hart á seljendur pakkaferða. Um er að ræða ferðaskrifstofur sem bæði selja ferðir hingað til lands og erlendis. Frumvarpið er hluti af aðgerðum stjórnvalda til aðstoðar atvinnulífinu en jafnframt er reynt eftir fremsta megni að gæta jafnvægis með því að tryggja að inneignarnótur falli undir tryggingavernd pakkaferðatryggingar.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.