150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

aðgerðir í þágu námsmanna vegna COVID-19.

733. mál
[16:31]
Horfa

Flm. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu okkar, þingflokks Samfylkingarinnar, um aðgerðir í þágu námsmanna vegna Covid-19. Það er alkunna að námsmenn hafa ekki farið varhluta af þeim þrengingum og erfiðleikum sem hafa fylgt komu þessarar veiru, Covid-19, og þess vegna leggjum við til að ráðist verði í almennar aðgerðir fyrir þennan hóp. Þennan hóp, segi ég, en námsmenn eru náttúrlega ekki einsleitur hópur, heldur eru þeir þverskurður samfélagsins sem við köllum námsmenn. Þetta er fólk úr öllum hópum samfélagsins, fólk af öllu tagi, harðduglegt fólk og minna duglegt fólk, þetta er fólk sem vinnur afrek og fólk sem vinnur kannski ekki afrek og allt þar á milli. Þetta er þó allt saman fólk sem á það sammerkt að vera á þeim stað í lífinu að vera námsmenn. Það er á leið frá einum stað í lífinu og yfir á annan stað í lífinu og þarf kannski einmitt á þessu ferðalagi sínu á ákveðinni hjálp að halda, a.m.k. hefur hinn almenni námsmaður ekki í digra sjóði að sækja.

Á síðustu vikum hafa margir orðið fyrir miklum kjaraskerðingum og margir námsmenn, eins og við vitum, hafa viðurværi sitt og aukavinnu af alls konar þjónustustörfum sem hafa orðið alveg sérstaklega illa úti í þessari óáran. Fólk vinnur kannski á kaffihúsum, veitingahúsum eða í ferðaþjónustu og auk þessa hafa námsmenn þurft að gera sér að góðu að stunda námið heima fyrir hvernig sem aðstæðum þar er háttað. Í því sambandi má minna á að 34% námsmanna eru foreldrar. Hér er sem sé um að ræða að mjög stórum hluta ungt fjölskyldufólk.

Það er ljóst að atvinnuleysi mun aukast mikið á næstu vikum og mánuðum og því miður má reikna með að það taki töluverðan tíma að snúa þeirri þróun við. Það má leiða líkur að því að þetta ástand muni gera námsmönnum erfitt fyrir að ganga inn í sumarstörf þetta árið. Þess vegna þurfa stjórnvöld að tryggja námsmönnum annaðhvort rétt til atvinnuleysisbóta í sumar til að mæta þessari miklu óvissu á vinnumarkaði eða þá viðunandi framfærslu með því að Lánasjóður íslenskra námsmanna móti þá aðgerðir til að auka fjárhagslegt svigrúm námsmanna. Sjóðurinn gæti m.a. boðið námsmönnum í hlutastarfi sem eiga ekki kost á að nýta sér hlutabótaleiðina þriggja mánaða framfærslustyrk til að brúa bilið yfir sumarið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í umræðunni hefur oft komið upp, og það var raunar rætt áður en þessi faraldur hófst, kvíði meðal ungs fólks sem sérstakt vandamál. Það þarf ekki að fara í grafgötur með að í kjölfar þessa faraldurs hefur kvíði aukist mjög mikið og því leggjum við til að námsmönnum sé tryggður greiður aðgangur að sálfræðiþjónustu. Tveir háskólar veita sálfræðiráðgjöf og hópmeðferðir og síðustu misseri hefur aðsókn í þá þjónustu aukist. Við viljum líka að aðgengi námsmanna að geðheilbrigðisþjónustu verði bætt. Við viljum að geðheilbrigðisþjónusta innan þeirra háskóla sem eru með slíka þjónustu verði styrkt, að hún verði tryggð innan allra háskóla landsins, verði niðurgreidd og standi námsmönnum um allt land til boða til 1. september. Án stuðningskerfa eins og sálfræðiaðstoðar er ekki hægt að tryggja jafnt aðgengi að námi. Það þarf að jafna aðgengi námsmanna að sálfræðiðstoð um allt land og auka almenn úrræði í sálfræðiþjónustu, að þau standi námsmönnum til boða og að þeim standi til boða endurgreiðsla vegna útlagðs kostnaðar við sálfræðiþjónustu.

Í þessari tillögu er líka vikið að því að margir námsmenn komu heim úr námi erlendis vegna þess að aðstæður buðu ekki upp á að halda þar námi áfram eða dvöl. Sumir eru enn í sínu námslandi og eiga við alls konar vandamál að stríða út af því. Þessu þarf að mæta svo þeir námsmenn lendi ekki í alvarlegum fjárhagsörðugleikum sem getur leitt til þess að þeir þurfi að hætta í námi.

Svo eru þess ótal dæmi að námsmenn hafi þurft að leggja út fyrir miklum ferðakostnaði vegna ferðalaga frá námslandi og til Íslands og þá væri æskilegt að lánasjóðurinn stigi inn í það og gæfi þeim kost á endurgreiðslu þess kostnaðar.

Svo má hugsa sér að upp komi tilvik þar sem námsmenn sjái sér ekki fært að ljúka vorönn vegna þessa ástands og þá ættu þeir að eiga kost á að fá lánsupphæð sína hjá lánasjóðnum niðurfellda. Þessi aðgerð er mikilvæg til að draga úr brottfalli íslenskra námsmanna úr námi, bæði hérlendis og erlendis. Við vitum að afleiðingar slíks brottfalls gætu orðið námsmönnum verulega þungbærar og það jafnvel til lengri tíma og þarf heldur ekki að fara mörgum orðum um þjóðhagsleg áhrif þess að stórfellt brottfall verði úr námi. Það er mjög mikilvægt að halda áfram að styðja við og efla nýsköpun og menntaþróun með því að veita námsmönnum sem kjósa að stunda nám bæði erlendis og hér á landi aukið svigrúm í því árferði sem gengur nú yfir á heimsvísu.

Svo langar mig að fara nokkrum orðum um stöðu iðnnema sem tekið er á í þessari þingsályktunartillögu. Mikil umræða hefur orðið að undanförnu um nauðsyn iðnnáms og ég hygg að nánast ríki þjóðarsátt um að okkur beri að efla iðnnám og beina fleira fólki þangað en verið hefur á umliðnum árum. Staða iðnnema er sérstaklega viðkvæm nú vegna Covid-19. Stór hluti af námi iðnnema er, eins og við vitum, í formi starfsnáms og iðnnemar treysta á að bóklegt og verklegt nám sé kennt samtímis. Án starfssamnings er nám iðnnema í hættu.

Við leggjum til að tryggt verði aukið fjármagn í vinnustaðanámssjóð Ranníss svo unnt sé að gera fleiri meisturum kleift að taka við iðnnemum sem svona er ástatt um. Þá þurfa þeir iðnnemar sem missa samning fyrir 1. september að eiga kost á því að ljúka námi sínu með öðrum hætti á tilskildum tíma. Með því er hægt að koma í veg fyrir brottfall úr mikilvægum námsgreinum. Samband íslenskra framhaldsskólanema hefur vakið alveg sérstaka athygli á þessum vanda og sambærilegar aðgerðir hafa komist til framkvæmda á hinum Norðurlöndunum.

Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til allsherjar- og menntamálanefndar.