150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[15:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum svarið af því það kom málinu aðeins á hreint. Það er náttúrlega þannig að lokunarstyrkirnir geta samkvæmt 9. gr. verið fengnir á forsendum sem í ljós kemur að hafa verið rangar þannig að viðurlög í þessum lögum eiga kannski síður við hárgreiðslustofur en það eru — nei, ég ætla ekkert að fara að giska á einhverja rekstraraðila. Það er fræðilegur möguleiki að viðurlagaákvæði virkist varðandi rekstraraðila sem fær lokunarstyrk og þá er bara gott að það hafi komið fram hér, í ræðu framsögumanns meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að það sé ekki ætlunin að ströngustu viðurlög í þessu frumvarpi eigi við um þá aðila heldur kannski stærri fyrirtæki sem eru vísvitandi að brjóta gegn öðrum ákvæðum laganna.