150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:13]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Þessi breytingartillaga er í þremur liðum. Í fyrsta lagi er lagt til að lokunarstyrkir miði við fjölda stöðugilda frekar en fjölda starfsmanna. Það kom fram í umsögnum að ef miðað er við starfsmenn án tillits til starfshlutfalls fengi fyrirtæki með þrjá starfsmenn í 50% starfi hærri styrk en fyrirtæki með tvo starfsmenn í fullu starfi.

Í annan stað er lagt til að lágmarksviðmið við stuðningslán verði 4,2 millj. kr. í árstekjur í stað 9 milljóna eins og nú er. Það er sama viðmið og vegna lokunarstyrkja og þannig geta smæstu rekstraraðilar haft aðgang að báðum úrræðunum.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um að bæta við skilyrði fyrir stuðningsláni þess efnis að árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert í lögaðila.