150. löggjafarþing — 102. fundur,  12. maí 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

725. mál
[19:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Þó að ég styðji þær breytingartillögur sem gerðar hafa verið af því að þær eru vissulega til bóta er það ekki svo að í þessum breytingartillögum séu settar skýrar skorður við því að ekki sé hægt að láta úr ríkissjóði fé til stuðnings fólki sem nýtir sér skattaskjól. Það er ekkert ákvæði sem kemur í veg fyrir það. (Gripið fram í: Það er rangt.) Það er ekkert ákvæði, öll ákvæðin sem eru sett þarna — ég hvet hv. þingmenn til að lesa skilyrðin áður en þeir greiða atkvæði og áður en þeir mótmæla því að það sé rangt sem ég er hér að segja.

CFC-reglur eru í löggjöfinni, það á að skila ársskýrslum og það á að segja hverjir eru raunverulegir eigendur. Ótakmörkuð skattskylda er á öllum þeim sem fá tekjur hér á landi. Ekkert af þessu er nýtt. Ekkert af þessu (Forseti hringir.) er skilyrði sem útilokar að úr ríkissjóði renni stuðningur til fyrirtækja sem nýta sér aflandsfélög og skattaskjól. Ekkert.