150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir tilraun til þess að svara og endurtek þá bara seinni helming spurningarinnar sem snýr að því hvort hv. þingmaður hafi tilfinningu fyrir því að þeir sem nú starfa úti á akrinum, í löggæslu, félagsþjónustu eða heilbrigðisþjónustu, ástundi það sem hvort tveggja neyslurýmin og afglæpavæðingin boða, að horfa í gegnum fingur sér, þrátt fyrir skýran lagabókstaf um hið gagnstæða, þ.e. að þar sé fólk að störfum sem beitir mannúðinni umfram lögin, og þá hvernig því fólki líður með það.

Svo langar mig aðeins að spyrja hv. þingmann út í þetta með fordæminguna og útskúfunina, hvort hún hafi tilfinningu fyrir því að það geti jafnvel leitt einstaklinginn út í harðari neyslu en ella, að vera stöðugt fordæmdur af samfélaginu, að það leiði hann enn dýpra inn í vandann.