150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í ræðu hv. þingmanns komu fram sambærilegar áhyggjur og komu fram hjá hv. 3. þm. Suðurk., Birgi Þórarinssyni, og vil ég svo sem ekki að gera lítið úr þeim þótt ég sé efnislega ósammála. Ég hef hins vegar tekið eftir því að það er mikill ótti við að með því að hafa þessi svæði myndi þar grassera meiri vímuefnasala en er nú þegar. Nú verð ég að viðurkenna að sjálfur eldist ég og verð fjarlægari tækninni, en ég sat á dópstofu um daginn, drakk þá dóp sem heitir áfengi, bjór nánar tiltekið. Þá sýndi mér einstaklingur sem var á þeim bar hvernig hann færi að því að sækja sér vímuefni, sýndi mér það í símanum sínum. Hann fór þar inn eitthvert spjallsvæði og sýndi mér hvar hann gæti fengið þvílíkt úrval af vímuefnum að ég get ekki ímyndað mér að mann myndi nokkurn tímann skorta neitt eftir að hafa aðgang að slíku. Þetta svæði var bara aðgengilegt almenningi.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að það sé þannig í dag að það séu veruleg höft á vímuefnasölu vegna þess að refsistefnan og stefnan sem við beitum í dag virki svo vel.