150. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:28]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, með síðari breytingum, neyslurými, bara svo það sé sagt ef einhver var búinn að gleyma því. Þetta mál er til 2. umr. og var á dagskrá í 1. umr. í haust og hefur verið til meðferðar í hv. velferðarnefnd og hefur tekið nokkrum breytingum og er það vel.

Búið er að fara mikið ofan í þetta mál og minna á það, eins og hefur reyndar komið fram í dag, að fíkn er sjúkdómur sem fer ekki í manngreinarálit frekar en Covid-19. Þó að hann berist ekki á milli manna eins og sá sjúkdómur þá er hann skilgreindur sjúkdómur og fer ekki í manngreinarálit og þeir sem ánetjast fíkniefnum verða misjafnlega veikir. Sumir verða það veikir að þeir fara alla leið og láta lífið af völdum sjúkdómsins, aðrir ná að hætta og í þeim hópi eru þeir sem hafa leitað sér hjálpar, farið í meðferð eða jafnvel bara beint inn á AA-fundi. Svo eru náttúrlega enn aðrir sem hafa hætt með því að ákveða að þetta sé orðið gott. Þá hef ég álitið að þeir séu ekki fíklar heldur átti sig á að þetta sé komið út fyrir allt velsæmi og nái að hætta neyslu. En hérna erum við að ræða um einstaklinga sem eru það veikir að þeir eru komnir á lokastig sjúkdómsins og eru oft einstaklingar sem hafa ekki í nokkurt hús að venda og eru jaðarsettir, eins og hefur komið fram í ræðum, sem er nú kannski svolítið ofnotað en á alveg við þarna.

Ég vil gefa þessu máli séns. Ég vil vita hvernig þetta úrræði reynist. En ég vil jafnframt taka fram, eins og kemur fram í umsögn frá meðferðarráðgjafa og sérfræðingi í fíknisjúkdómum, að verkefnið má ekki vinna gegn sjálfu sér. Þá verði að grípa til þeirra ráða að það komi ekki fyrir. Ég legg mikla áherslu á að því verði fylgt eftir. Það sem ég myndi vilja leggja áherslu á er að ef frumvarpið verður að lögum og ef þessi starfsemi verður sett á fót, að fagfólk starfi við þetta þannig að þeir einstaklingar sem leita í þetta skjól eða neyslurými hafi þá, fyrir utan allt hreinlæti og allt það, aðgengi að fagfólki sem getur vonandi leiðbeint þeim og komið til hjálpar, þá meina ég inn í meðferð. Það er ekkert sjálfgefið að fólk vilji fara í meðferð sem er ánetjað fíkniefnum, það er alls ekki sjálfgefið. Oft getur það verið stuttur tími, einhver ægileg vanlíðan og eitthvað rosalegt sem hefur komið fyrir og þá þarf meðferðarúrræði að vera til staðar.

Við erum ekki að tala um marga einstaklinga sem eru á þessum stað. Talað er um 20–30 manns, eitthvað svoleiðis, hér í þessari umræðu. Einhverjir af þessum einstaklingum hafa farið í einhverjar meðferðir og eru á biðlistum eftir að komast í meðferð og af því að minnst var á það áðan í ræðum þá eru þeir biðlistar langir. Það er nú þannig á þessum meðferðarstöðvum hér á landi að fíklar, alkóhólistar, sem eru búnir að fara í meðferð í nokkur skipti eru aftar á biðlistanum en aðrir sem eru að koma í fyrsta skipti og svo eru ýmsar aðferðir til við það. Þannig að ég myndi leggja áherslu á það og ég hefði viljað sjá það að heilbrigðisráðherra, sem leggur þetta frumvarp fram, myndi einhenda sér í að stytta biðlista, setja það fjármagn sem vantar í meðferðarúrræðin til að meðferðirnar standi opnar fyrir þá sem sækjast eftir að komast í meðferð. Mér hefur oft fundist svörin við þeirri spurningu vera svolítið út um maga og læri eða sem sagt, það er talað um faglega biðlista. Ráðherrann talar svo oft um að biðlistar þurfi að vera faglegir. Það getur vel verið að það eigi við í einhverjum tilfellum gagnvart einhverjum sjúkdómum. Þetta er auðvitað allt í þróun. Meðferðarúrræði, fíkniefni og neysluvenjur þróast, þetta er allt að þróast og það er alltaf verið að reyna að vinna að þessum málum og finna einhverja leið til að geta fengist við þetta stóra vandamál sem fíknisjúkdómurinn er.

Eins og ég sagði í upphafi vil ég gefa þessu frumvarpi séns. Ég vil sjá hvernig þetta reynist. Reynsla annarra landa kemur fram í umsögnum, t.d. í sambandi við sprautunálar og annað slíkt og aðstæður fíkla og líka gagnvart þeim sem eru á þeim svæðum í heimilishverfum og á leiksvæðum þar sem fíklar halda sig oft og eru að sprauta sig og börn eru eðlilega óvarin fyrir þessu. Það hefur sýnt sig að í þeim löndum sem svona neyslurými hafa verið sett á laggirnar hefur t.d. sprautunálum fækkað um 90%, þannig að t.d. bara það eru í raun og veru góðar fréttir.

En ég ætla ekki að nýta allan ræðutíma minn. Margt hefur komið fram og sitt sýnist hverjum. Það eru ekki flokkslínur í þessu máli, það er alveg greinilegt. Við flokksfélagi minn, hv. þm. Birgir Þórarinsson erum ekki sammála í þessu og það er bara allt í lagi. Það er bara það frelsi sem við höfum, þingmenn, að hafa þá skoðun sem okkur býr í brjósti. En þessi atriði sem ég hef minnst á legg ég áherslu á, þ.e. að fylgst verði með því að verkefnið vinni ekki gegn sjálfu sér og fagmennska sé höfð í fyrirrúmi, fíklum sé leiðbeint og reynt að opna augu þeirra fyrir því að hjálp sé til. Það kom einmitt fram hérna í ræðum áðan að oft eru svona langt leiddir fíklar búnir að missa trú og gefast upp og þetta er þá það eina sem þeir lifa fyrir. Ef þeir fyndu fyrir því að einhver klappaði kannski á bakið á þeim og talaði við þá og leiðbeindi þeim þá er þetta einmitt kannski vettvangurinn til þess því að þeir hafa ekki í önnur hús að venda með það, þannig að ég myndi leggja áherslu á að það væri haft til hliðsjónar eða því væri fylgt eftir. Fagfólk er nauðsynlegt hvað þetta varðar.

Mér hefur fundist fordómar hafa aukist undanfarin ár, ekki gagnvart sjúkdómnum heldur þeim meðferðarúrræðum sem við höfum. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig stendur á því. Þetta er ofsalega erfiður sjúkdómur. Það er orðið svo mikið af ungu fólki sem hefur ánetjast. Foreldrar eru oft mjög óþolinmóðir, eðlilega, og vilja að eitthvað annað sé gert en það sem er í boði. Það er alltaf verið að reyna að leita leiða til að gera eitthvað annað eða bæta meðferðina. En þetta er alvarlegur sjúkdómur og erfiður viðureignar og á meðferðarstöðvum er boðið upp á fjölskylduviðtöl þar sem aðstandendur, sem geta oft verið mjög meðvirkir, eru upplýstir um það hvernig sjúkdómurinn virkar og að sá veiki er í raun og veru að vissu leyti tvær manneskjur, sá sem fæddist í heiminn og sá sem er veikur af fíkn í alkóhól eða önnur fíkniefni. Þá fær fólk oft skilning á því að það er að fást við mjög alvarlegan og erfiðan sjúkdóm og enginn getur hætt í neyslu nema vilja það sjálfur. Þú lemur engan til hlýðni í þessum málum heldur þarf viðkomandi að vilja komast út úr þessu sjálfur.

Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra en eins og ég sagði ætla ég að gefa þessu frumvarpi séns.