150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. þingmanni um að refsingar skili ekki neinu. Við refsum mönnum fyrir að vera með fíkniefni og setjum þá í fangelsi þar sem allt er morandi í fíkniefnum þannig að það er engin lausn. Einhvern veginn verðum við samt að finna nýjar lausnir. Ég vona að neyslurými sé ný lausn þar sem við horfum á hlutina á allt annan hátt en við höfum áður gert.

Fyrsta skrefið er að hætta að refsa veiku fólki. Ég var að tala um það í sambandi við spilafíkla. Þó að ég talaði um spilarými var ég eiginlega bara að segja að við þyrftum að hugsa hlutina á annan hátt en við gerum núna. Það er ömurlegt að ákveðnum hjálparsamtökum sé haldið uppi á fíkn annarra. Það er alveg eins og við værum með fíkniefnasölu ríkisins sem væri þó kannski að mörgu leyti betra vegna þess að þá væru efnin undir eftirliti og þá væri vitað hvað menn væru að taka inn. Við höfum ekki hugmynd um það í dag. Við höfum heyrt af því að efni séu drýgð með alls konar óþverra, jafnvel rottueitri. Það er eins og rúlletta að taka inn eiturlyf. Sá sem það gerir veit í sjálfu sér ekkert hverju hann er að sprauta í sig. Ef við værum með fíkniefnasölu ríkisins væri eftirlit með henni og þá væri hægt að láta gróðann renna í það en ég efast um að hljómgrunnur sé fyrir því.

Það sem við erum að gera í dag með boðum og bönnum hefur ekki virkað og vandinn eykst. Við verðum að reyna að finna aðra lausn og ég tel þetta pínulítið skref í að reyna að finna nýjar lausnir.