150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aukin skógrækt.

785. mál
[18:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og öðrum þingmönnum sem blönduðu sér í umræðuna fyrir þessa ágætu umræðu. Hv. þingmaður kemur inn á kolefnisbindingu sem mikilvæga leið til að vinna að loftslagsmálum. Ég tek alveg heils hugar undir það með hv. þingmanni, hún er afskaplega mikilvæg, en þegar kemur að losun og því að draga úr losun getur kolefnisbindingin aldrei komið í staðinn fyrir að draga úr losun. Hún getur komið sem uppbót þannig að við náum enn þá meiri árangri. Við munum aldrei geta árið 2021 dregið úr allri losun í heiminum, við vitum það, en við getum dregið að hluta til úr henni og þá kemur kolefnisbindingin á eftir ef við reynum að ná kolefnishlutleysi og jafna það sem við getum ekki dregið úr losuninni. Þegar kemur að losuninni er samdráttur í losun meginstefið í Parísarsamningnum, þ.e. að við verðum að draga úr losuninni. Það skiptir miklu máli upp á það að til lengri framtíðar horfum við á hagkerfi sem er ekki drifið áfram af jarðefnaeldsneyti heldur hagkerfi sem er drifið áfram af endurnýjanlegum orkugjöfum. Til þess þarf að draga úr losuninni, til þess þarf að umbylta orkukerfunum okkar þannig að við séum með í höndunum orkukerfi sem nýta endurnýjanlega orkugjafa en ekki þá sem valda þeirri losun sem nú verður.

Kolefnisbindingin skiptir vissulega máli, hún skiptir miklu máli en hún kemur ekki í staðinn fyrir það að draga úr losun.

Ég vil bara að lokum segja að það er mikilvægt að við getum haldið áfram að setja fjármagn inn í þessa þætti, bæði landgræðslu og skógrækt, enda eru þeir þættir og endurheimt votlendis (Forseti hringir.) mjög mikilvægur þáttur í loftslagsstefnu stjórnvalda og Íslands. Ég þakka hv. þingmanni aftur kærlega fyrir að vekja máls á þessu.