150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

olíu- og eldsneytisdreifing.

573. mál
[19:39]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom eru þessir málaflokkar á mjög mörgum stöðum og fyrir vikið er ég sammála hv. þingmanni um að mikilvægt sé að greina málið. Ég er líka sammála því að þjóðaröryggisráð hljóti að eiga að fara ofan í það annars vegar hve mikið magn er til í landinu og að það sé dreift um landið, upp á það öryggi sem tilheyrir. Ég held hins vegar að almannavarnir í héraði þurfi að fara meira yfir það hvaða tæki menn hafa og aðgang til að mynda að eldsneyti. Það kom í ljós þegar rafmagnsleysið var að menn höfðu ekki möguleika á að sækja eldsneyti þótt nóg væri til af því að það voru einfaldlega ekki til handdælur. Það eru slíkir hlutir sem ég held að heimamenn þurfi að fara yfir.

Varðandi mengunarslys og afleiðingar þeirra held ég að mjög áhugavert væri að skoða það. Við þekkjum auðvitað nokkur dæmi þar sem náttúran hefur orðið fyrir ótrúlegu áfalli, síldin í Kolgrafafirði þar sem menn héldu að þar yrði allt dautt um aldir og fóru jafnvel að kenna samgöngumannvirkjum um. Svo kom í ljós að það voru nokkrir árgangar af síld sem höfðu ruglast í höfðinu og fóru alltaf á sama stað og drápust þar, því miður. En staðreyndin er sú að fljótlega eftir það virtist náttúran hafa ævintýralega getu til að endurvinna stöðuna. Sama gilti um díoxínmengun í Engidal þar sem menn lokuðu brennslustöð og héldu að þessi dalur væri ónýtur um aldir, en það mældist ekkert bara einu ári, að ég held, eftir að brennslustöðinni var lokað. Þannig að geta náttúrunnar er ótrúlega mikil og ég held að það væri áhugavert að lesa það.

Varðandi ágætt innlegg hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar held ég að hann hafi misskilið eitthvað, en ég skal taka umræðu um flutningsjöfnun hvenær sem er. Hann misskildi ekki að hugmyndafræðin er sú að 175 milljónir eru taldar duga í flutningsjöfnun til að tryggja sömu áhrif og við höfum í dag, af því að markaðurinn sér einfaldlega um hina jöfnunina. Það er svarið. En við getum tekið betri umræðu um það við betra tækifæri.