150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

bifreiðaskoðanir og þjónustuskylda.

651. mál
[19:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningum til hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Ástæðan eru áform Frumherja um að hætta bifreiðaskoðun á Þórshöfn á Langanesi, á Raufarhöfn og Kópaskeri. Ég velti því upp hvort bifreiðaverkstæði gæti t.d. sinnt bifreiðaskoðun að tilteknum skilyrðum uppfylltum og hvort við þurfum jafnvel að skilgreina þjónustu þessara fyrirtækja nákvæmar en við gerum núna.

Að fara með bíl í skoðun er eitt af þeim verkefnum sem ekkert okkar hefur neitt sérstaklega gaman af. Það slást engir um það verkefni, held ég. Eftir að við einkavæddum Bifreiðaskoðun ríkisins hafa nokkur fyrirtæki séð um það eftirlit og kannski er þjónustan ekki eins góð og við gætum haft hana. Síðustu ár hafa okkur birst fréttir um að smám saman sé þessi þjónusta að versna, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum.

Fréttir um að leggja ætti niður þessa þjónustu á Þórshöfn, Kópaskeri og Vopnafirði birtust fyrir ekki svo löngu. Það þýðir að íbúar þessara samfélaga eru nauðbeygðir til að ferðast mjög langar vegalengdir, hundruð kílómetra. Það eru 150 km frá Þórshöfn til Húsavíkur þar sem næsta skoðunarstöð er þá. Það er auðvitað ekki ásættanlegt að bifreiðaeigendum á þessu svæði, við erum að tala um atvinnutæki og heimilisbíla og annað slíkt, sé gert að ferðast svo mikið með tilheyrandi tekju- og vinnutapi til að sinna lögskyldu eftirliti af því að þetta er ekki neitt sem við höfum val um að gera.

Við þekkjum það líka að þessir staðir eru margir hverjir þegar illa settir hvað varðar ýmsa þjónustu. Það kemur fram í þjónustukorti sem gert hefur verið af hálfu Byggðastofnunar og ég veit að ráðherra þekkir mjög vel. Ef fara á til læknis sem ekki er á heilsugæslu þarf stundum að fara langar leiðir. Ég vona að ráðherra sé mér sammála um að við þurfum að reyna að draga úr þeirri þróun. Ég velti því fyrir mér, hvað þetta mál varðar, hvort bifreiðaverkstæði geti annaðhvort sinnt þessu eftirliti með ákveðnum skilyrðum eða að við setjum hreinlega inn ákveðna lágmarksfjarlægð að næsta skoðunarstað.

Er hægt að skýra það í reglugerð varðandi þessa þjónustu sem skoðunaraðilar myndu þurfa að uppfylla?