150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

frumvarp um skilgreiningu tengdra aðila í sjávarútvegi.

[10:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég vil fyrst af öllu nefna að það sem hv. þingmaður kallaði frumvarp sjávarútvegsráðherra er ekki komið fram (Gripið fram í.) Sett voru út í samráðsgáttina drög að frumvarpi og kallað eftir athugasemdum við það. Það frumvarp var byggt á niðurstöðu nefndar sem sett var á laggirnar í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar um þessi efni. Ein af athugasemdunum þar inni, sem er réttmæt og mjög sterk, er sú að skýrleiki laga varðandi raunverulega eigendur og tengda sé ekki nægilega góð að mati Fiskistofu, og hafi ekki verið í langan tíma, til að hún geti framfylgt ákvæðinu sem snýr að hámarksaflahlutdeildinni. Af þeirri ástæðu óskaði ég eftir því að þetta yrði sett í forgang og reynt að flýta því. Fyrir lá að það yrði að endurskoða þingmálaskrá þingsins. Í ljósi óvissu Covid-faraldursins og umræðunnar um það að hingað á dagskrá kæmi helst ekkert annað en Covid-mál ákvað ég að það væri betra að geyma þetta fram á haustið og leyfa nefndinni að klára vinnu sína og koma með heildarfrumvarp á haustþingi varðandi þessi mál.

Sá tími sem settur var út í samráðsgáttinni, þessi sex ár, var fenginn með vísan til álíkra breytinga sem höfðu áður verið gerðar í löggjöfinni. Þar var sú viðmiðun fengin. Hún var sett fram fyrst og fremst til þess að kalla eftir viðbrögðum við því. Á sama tíma hafði komið fram þingmál frá þingmönnum, m.a. Viðreisnar, sem gerði ráð fyrir ákveðnum breytingum. Þar var gert ráð fyrir allt að 20 ára aðlögunartíma að þeim breytingum sem þar voru settar fram, þannig að það hafa verið og verða skiptar skoðanir um það hversu langan tíma á að gefa til að aðlagast einhverjum breytingum í þeim efnum.