150. löggjafarþing — 111. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[22:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Já, það kann að vera að hæstv. fjármálaráðherra þyki varnaðarorð ASÍ fáránleg. Mér þykir það miður af því að það er ekki bara ASÍ sem hefur sagt þetta heldur fjölmargir vinnuveitendur sem komu fyrir hv. velferðarnefnd. Þeir bentu á að misræmi milli þessara tveggja úrræða sem við höfum verið að greiða atkvæði um í kvöld, hvetji fyrirtæki til að nýta uppsagnaleiðina. Það kann að vera að hæstv. fjármálaráðherra átti sig ekki á því hversu mörg fyrirtæki á Íslandi hafa tapað 75% af tekjum sínum eða meira. Þau eru nefnilega fjölmörg, hæstv. ráðherra. (Fjmrh.: Hver er tillagan?) Þau eru þannig og þess vegna er þetta skýr hvati. 75% er engin vörn. Þetta er skýr hvati vegna þess að þessi leið hjálpar fyrirtækjum meira en hlutabótaleiðin. (Forseti hringir.) Var það tilgangurinn? (Gripið fram í.) Ég hélt að tilgangurinn hefði verið að tryggja ráðningarsambandið frekar en að ýta fyrirtækjum í það að fara í hópuppsagnir.