150. löggjafarþing — 113. fundur,  3. júní 2020.

opinber fjármál.

842. mál
[17:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafna því að ríkisstjórnin skili auðu. Við höfum í þrígang lagt fyrir fjáraukalagafrumvarp fyrir þetta ár. Ég rakti í framsögu minni að við höfum skilað sviðsmyndagreiningu til fjárlaganefndar. Ég fór yfir það hvernig við sjáum fyrir okkur að afkoma ársins muni þróast. Ég rakti það sömuleiðis hvert stefnir með afkomu á næsta ári að gefnum ákveðnum forsendum og meira að segja árin þar á eftir. Við erum ekkert að skila auðu. Stundum er einfaldlega gríðarlega mikil óvissa. Stundum er þoka og þá þýðir ekkert að gera eins og hv. þingmaður leggur til, að stíga bara bensíngjöfina og fara hraðar í gegnum þokuna. Það hjálpar ekkert. Stundum er óvissan slík að maður getur ekki lagt trúverðugan grundvöll undir uppfærða áætlun. Maður þarf að gefa tíma til þess, safna gögnum og glöggva sig á því hvernig spilast úr óvissunni. Við erum ekki að tala um að taka einhver ár í það. Við erum að tala um að taka nokkrar vikur. Og til hvers tökum við þessar vikur? Til að ákveða hvernig grunnurinn að fjárlögum næsta árs verður mótaður. Það er ekki spurning um að við séum í einhverri óvissu út þetta ár vegna ákvarðana sem teknar verða á árinu. Nei, við erum að leggja breiðu línurnar fyrir næstu fjármálaáætlun sem verður svo lögð fram aftur fyrir páska á næsta ári. Við erum að leggja grunninn að fjárlagafrumvarpinu sem mun sömuleiðis koma fram á þessu ári, þannig að tjónið er í sjálfu sér ekki neitt eins og ég horfi á það. Tjónið er ekki neitt. Við erum bara raunsæ í þeirri stöðu sem upp er komin og það myndi ekki gagnast þinginu, ekki gagnast markmiðum laganna að koma hér með fjármálaáætlun sem reist er á algerlega óvissum forsendum. Og að reyna að byggja einhverjar ákvarðanir á slíku skjali held ég að sé í besta falli tímasóun.