150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

yfirvofandi verkfall hjúkrunarfræðinga.

[15:36]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Síðustu mánuðir hafa sýnt á óyggjandi máta ótrúlega þrautseigju, fórnfýsi og dug þeirra sem starfa í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Öllum ætti að vera orðið ljóst hversu ómissandi störf hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks eru fyrir samfélagið. Þingflokkur Pírata hefur ávallt hvatt til að forgangsraða fjármunum í þágu heilbrigðisstarfsfólks og -stofnana og styður kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga. Þannig tryggjum við framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir þá sem á henni þurfa að halda. Hjúkrunarfræðingar gegna þar lykilhlutverki og góð kjör og góð starfsaðstaða hjúkrunarfræðinga er grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi. Hjúkrunarfræðingar eru grundvallarforsenda fyrir góðu heilbrigðiskerfi.

Eftir hátt í átta ár án þess að fá ásættanlegan kjarasamning, eftir fimm ár undir lögum sem bönnuðu verkfall þeirra, eftir þrjú ár undir samningi sem gerðardómur þvingað upp á þau og eftir 15 mánuði án samninga og eftir að hafa sett sig í hættu í framlínunni við að kveða niður Covid-faraldurinn, sjá hjúkrunarfræðingar sig tilneydda að fara í verkfall 22. júní. Á sama tíma og við stefnum að opnun landsins og uppbyggingu atvinnulífs stefnir einnig í að ekki verði hægt að framkvæma þær sýnatökur á landamærunum sem ríkisstjórnin tilkynnti fyrir rétt um klukkustund síðan.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvernig sér hún fram á að sýnatöku verði sinnt án hjúkrunarfræðinga? Verkfallið, ef því verður ekki afstýrt með samningi, mun skella á einungis viku eftir að landamæri opnast. Hvað gerist þá, hæstv. heilbrigðisráðherra? Telur ráðherra líklegt að ferðamenn muni bóka ferðir til lands þar sem verkfall hjúkrunarfræðinga blasir við? Er ekki hagsmunum Íslands best borgið með því að semja strax?