150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

innflutningur dýra.

608. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra. Málið fór til atvinnuveganefndar milli 2. og 3. umr. og við fengum á fund nefndarinnar Sigurborgu Daðadóttur yfirdýralækni og Þorvald H. Þórðarson frá Matvælastofnun. Það bárust einnig umsagnir frá Dýraverndarsambandi Íslands, Félagi ábyrgra hundaeigenda og Samtökum grænkera á Íslandi.

Ég ætla aðeins að reifa það sem kom út úr vinnu nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Í umsögn til nefndarinnar er því velt upp hvort ástæða sé til að endurskoða orðalag ákvæðis er varðar meðferð dýra sem flutt eru til landsins án heimildar eða þegar þau sleppa frá flutningsförum. Í því samhengi er m.a. vísað til meðalhófs og lagt til að ávallt sé beitt vægari úrræðum en þeim að dýri sé tafarlaust lógað eða fargað. Nefndin bendir á að markmiðið með þeirri breytingu sem lögð er til með hinu tilvísaða ákvæði er að gætt sé meðalhófs þegar dýr eru flutt til landsins án heimildar eða þau sleppa frá flutningsförum. Gildandi ákvæði kveður á um að í slíkum tilvikum sé dýrum tafarlaust lógað. Þá hafi komið fram fyrir nefndinni að breytingin veiti svigrúm til að beita vægari úrræðum með því að Matvælastofnun verði veitt heimild til að gefa umráðamönnum dýra kost á að senda þau úr landi, að því skilyrði uppfylltu að smitvörnum sé ekki ógnað. Í því felist m.a. að meðan gerðar eru ráðstafanir um afdrif þeirra dýra séu þau í vörslu Matvælastofnunar. Æskilegt væri að slík einangrun fari fram í móttökustöð gæludýra á Keflavíkurflugvelli, hafi innflutningurinn átt sér stað um Keflavíkurflugvöll en annars staðar þyrfti að gera viðeigandi ráðstafanir hverju sinni.

Nefndin telur með hliðsjón af framangreindu rétt að tekinn sé af allur vafi um að umrædd dýr skuli vera í vörslu Matvælastofnunar á meðan gerðar eru ráðstafanir um afdrif þeirra og leggur til viðeigandi breytingu á orðalagi ákvæðisins.

Við meðferð málsins fyrir nefndinni lagði ráðuneytið til sambærilegar breytingar á 4. málslið 1. efnismálsgrein 1. gr. frumvarpsins er varðar ráðstöfun dýra sem hafa verið sædd eða notuð sem fósturmæður og afkvæma þeirra eftir ólögmætan innflutning á sæði, eggjum eða fósturvísum. Þar sem slík dýr eru íslensk, þ.e. fædd á Íslandi, er talið æskilegt að Matvælastofnun verði heimilt að láta framkvæma áhættumat með tilliti til smitvarna áður en ákvörðun varðandi ráðstöfun verði tekin. Í einhverjum tilfellum gæti niðurstaða slíks áhættumats jafnvel orðið sú að ekki verði krafist aflífunar né brottflutnings heldur yrði dvöl á landinu heimiluð með skilyrðum á grundvelli sóttvarnasjónarmiða, samanber önnur ákvæði laganna.

Nefndin fellst á þau sjónarmið enda í samræmi við markmið frumvarpsins um beitingu meðalhófs við ráðstöfun og leggur til viðeigandi breytingu á frumvarpinu.

Í umsögn Félags ábyrgra hundaeigenda er sett fram það sjónarmið að í þeim tilvikum þegar umráðamaður dýrs hefur falið þriðja aðila að flytja það til landsins með flutningsfari sé ekki rétt að umráðamanni sé gert að bera kostnað af förgun eða flutningi dýrs úr landi, þegar það sleppur úr flutningsfari. Nefndin vill í þessu samhengi minna á að ákvörðun um hvort flytja skuli dýr úr landi eða lóga því byggist á sjónarmiðum um viðbrögð við smitvörnum og skuli því ekki litið á sem refsingu við brot á lögum um innflutning dýra. Hvað varðar sjónarmið um kostnað umráðamanns mætti líta svo á að flutningsaðili sé ábyrgur fyrir flutningi á viðkomandi dýri á meðan á flutningi stendur. Eigi mistök sér stað fari um þann kostnað eftir því sem umráðamaður dýrs samdi um við flutningsaðilann og þeim skilmálum er gilda um flutninginn.

Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin þó rétt að gera skýrara að sá sem er ábyrgur fyrir flutningi dýrs sem sleppur úr flutningsfari fyrir slysni skuli tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi og leggur til breytingu þess efnis.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

Í stað 3. og 4. málsliðar 1. efnismálsgreinar 1. gr. komi fimm nýir málsliðir, svohljóðandi: Umráðamaður dýrs, sem er flutt inn án heimildar, skal þá tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Sá sem er ábyrgur fyrir flutningi dýrs, sem sleppur úr flutningsfari fyrir slysni, skal á sama hátt tafarlaust gera ráðstafanir þar að lútandi á eigin kostnað. Á meðan ráðstafanir eru gerðar um afdrif dýra sem eru flutt inn án heimildar eða sloppið hafa úr flutningsförum skal einangra þau í vörslu Matvælastofnunar. Eggjum, sæði eða fósturvísum skal á sama hátt eyða eða senda úr landi á kostnað innflytjanda, svo og dýrum sem sædd kunna að hafa verið eða notuð sem fósturmæður og afkvæmum sem kunna að hafa fæðst eftir ólögmætan innflutning. Matvælastofnun er þó heimilt að láta framkvæma áhættumat með tilliti til smitvarna áður en ákvörðun um ráðstöfun er tekin samkvæmt 6. málslið og getur á grundvelli þeirrar niðurstöðu heimilað dvöl á landinu að uppfylltum skilyrðum.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álit þetta í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis og með fyrirvara.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Ólafur Ísleifsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Sigurður Páll Jónsson og hv. þm. Jón Þór Ólafsson, með fyrirvara.