150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

málefni lögreglunnar.

[11:37]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er margt að gerast innan lögreglunnar, margt mjög jákvætt. Þar hafa orðið mannaskipti í forystu. Þar eru nýjar áherslur og kynslóðaskipti eru að verða innan stéttarinnar. Inn er að koma ungt, háskólamenntað fólk með nýja og aðra sýn á málin. Við stöndum samt frammi fyrir því að lögreglan er samningslaus. Það gengur ekki þegar horft er til framtíðar. Við þurfum að finna lausn á því og ég þakka ráðherra fyrir ágæt svör hér áðan.

Það er eitt sem skýtur svolítið skökku við. Lögreglumaður sem lætur af störfum og fer að vinna annars staðar hjá hinu opinbera fær námskeið sem hann hefur farið í metin til launa, viðurkennd námskeið í Lögregluskólanum. Það fær hann ekki innan lögreglunnar. Ég vil því spyrja ráðherra hvort til standi að standa við loforð um stofnanasamninga. Eins langar mig til að spyrja, með breyttum áherslum núna með öðru fólki í forystu, hvernig gangi með samvinnu embætta. Hver er staðan, hver er framtíðarsýnin? Hvernig sér hæstv. ráðherra stöðu ríkislögreglustjóraembættisins? Þá má líka spyrja að því hvernig lögregluráð reynist. Hafa kjaramál verið rædd þar? Samkvæmt mínum heimildum er mikill órói innan lögreglunnar um þessi mál, að þau skuli vera upp í loft. Eins langar mig til að spyrja, í ljósi þess að nú eru viðræður í gangi, á hvaða leið þær eru. Ef ekki er von á niðurstöðu strax langar mig til að spyrja hvort ráðherra sjái flöt á því að tryggja kjaralega stöðu lögreglunnar meðan hún hefur ekki verkfallsrétt, t.d. með sambærilegri tengingu og gildir um þingfararkaup eða þá að tengja við einhverja aðra stétt.