150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[13:26]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir prýðisgóða og áhugaverða fyrirspurn og ég treysti á að forseti leyfi mér að tala í tíu mínútur til að svara. — Nei, það er ekki svo.

Ef við tökum efnisatriði þessa máls út fyrir og tölum um opinbera hlutafélagið sem form, þá get ég alveg sagt að ég held að það hafi ekki gengið upp eins og lagt var upp með í byrjun þegar þessu félagaformi var komið á. Ég held að við ættum að taka það til heildstæðrar endurskoðunar, hreinlega á næsta þingi, hvort ástæða sé til að stíga til baka. Ég held að það sé alveg möguleiki í stöðunni að félagaformið verði aflagt. Mér finnst það ekki hafa gengið vel. Ég held að ekki nokkur þingmaður telji að markmið um gegnsæi og eftirlitsskyldu hafi náðst fram undir þessu regluverki. Hv. þingmaður nefndi Íslandspóst í því samhengi. Annað fyrirtæki sem væri hægt að nefna er Isavia sem fær það hlutverk í fangið á þeim tíma núna þegar tekjustreymið er algerlega dautt að yfirtaka nýframkvæmdir og rekstur ákveðinna innanlandsflugvalla án þess að neinar tekjur skili sér þar á móti til að standa undir þeim kvöðum sem á félagið eru settar. Það er mjög skrítið annars vegar hvernig gengið er um þessi félög, eins og í þessu tilviki Isavia og kvaðirnar sem á það eru lagðar þarna, og hins vegar er gegnsæið og upplýsingaskyldan eitthvað sem ég leyfi mér að fullyrða að hafi alls ekki tekist vel til heilt yfir.

Ég er þeirrar skoðunar og nefndi það í ræðu minni áður en hv. þingmaður kom í salinn að það yrði skoðað á milli umræðna í nefndinni hvort það ætti hreinlega að yfirfæra þetta mál, verði félagið sett á laggirnar, yfir í ehf. eða hf. úr ohf.-forminu.