150. löggjafarþing — 125. fundur,  23. júní 2020.

almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður).

[20:47]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Þetta ár hefur verið mörgum erfitt. Sumir misstu einhvern nákominn og aðrir hafa lent í fjárhagserfiðleikum. Covid-faraldurinn hefur haft áhrif á líf okkar allra.

Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er kjölfestan okkar og því er áfall fyrir atvinnulífið áfall fyrir okkur öll. Öflug verðmætasköpun og útflutningstekjur eru grunnur að velferð og lífsgæðum þjóðarinnar. Mikil óvissa ríkir um framvindu efnahagsmála á Íslandi líkt og annars staðar í heiminum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir mesta samdrætti í heimshagkerfinu síðan í kreppunni miklu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Óvissan er óvenjumikil og þróun efnahagsmála ræðst af því hvernig tekst að ráða niðurlögum hættulegrar veiru og koma hjólum efnahagslífsins aftur af stað.

Sannarlega er ekki bjart yfir þessum spám en höfum hugfast að þetta er tímabundið ástand. Og ef ríkissjóður hefur einhvern tímann verið í færum til þess að bregðast við niðursveiflu sem þessari þá er það núna.

Frá því að Sjálfstæðisflokkurinn kom í ríkisstjórn 2013 hefur verðmætasköpun samfélagsins aukist um þriðjung og skuldir íslenska ríkisins eru nú með því lægsta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Verkefnið var skýrt. Ábyrgð í ríkisfjármálum og hröð niðurgreiðsla skulda. Við spenntum ekki bogann of hátt. Við sýndum festu og ábyrgð.

Nú njótum við ávaxta þess. Ríkisstjórnin hefur stigið kröftuglega inn og aukið fjárfestingar ríkisins til að auka eftirspurn í hagkerfinu. Við tryggðum störf, veittum lán til fyrirtækja og styrktum fyrirtæki sem lentu í greiðslufalli. Við höfum aðstoðað barnafjölskyldur, lækkað skatta og frestað gjalddögum. Við höfum hjálpað hagkerfinu að hjálpa sjálfu sér.

Það koma tímar þar sem ég spyr mig af hverju ég valdi stjórnmálin, þegar allt púður fer í að ræða mál sem litlu máli skipta í stóra samhenginu og það á kostnað stærri og mikilvægari mála. Þá þykir mér svo vænt um að heyra af bakaranum sem náði að halda öllu sínu fólki í vinnu vegna hlutabótaleiðarinnar, af fjölskyldunni sem rekur litla gistiheimilið og komst í gegnum erfiðasta hjallann og af hársnyrtinum sem gat blessunarlega borgað sér út laun og framfleytt fjölskyldunni þann mánuðinn vegna lokunarstyrkjanna. Það eru þessar reynslusögur sem sannfæra mig um að ég eigi áfram að leita leiða og lausna. Að það sem við gerum sé að virka og skipti fólk máli.

Verkefnin sem við höfum þurft að takast á við undanfarna mánuði hafa verið vandasöm. Þetta hefur ekki allt verið auðvelt þar sem oft ber mikið á milli ólíkra flokka, en okkur hefur tekist að klífa ótrúlegustu fjöll. Þetta er einmitt styrkur ríkisstjórnarsamstarfsins. Það þarf lýðræðislegan þroska til að vinna saman á breiðum grunni og ná víðtækri sátt en það er trú mín að einmitt þetta hafi reynst kletturinn í hafinu þegar það brast á með þeim ólgusjó sem við erum nú í.

Kæru landsmenn. Erfiðleikarnir eru ekki að baki. Það er ábyrgð okkar hér á þingi að halda fókus á þjóðarheill og þjóðarhag. Hagsmunirnir eru okkar allra. Vonandi berum við gæfu til þess að nýta núverandi ástand til að búa í haginn fyrir framtíðina. Að okkur takist að nýta tímann til að tryggja meiri afköst, framleiðni og efla samkeppnishæfni landsins. Öflugt atvinnulíf og öflugt velferðarkerfi fara saman hönd í hönd.

Umræða um fjórðu iðnbyltinguna á sér nú stað um allan heim. Hún snýst ekki bara um þær tæknibreytingar sem hugtakið nær yfir, einkum á sviði sjálfvirknivæðingar og gervigreindar, heldur einnig hvaða samfélagsbreytingar munu eiga sér stað. Íslenskt samfélag er opið fyrir nýrri tækni og landið stendur vel að vígi sem auðveldar okkur að taka næstu skref í hagnýtingu tækninnar. Það má glöggt sjá á þeim góða árangri sem náðst hefur í ljósleiðaravæðingu landsins.

En við megum ekki sofa á verðinum og verða óvirkir áhorfendur að framrás tækninnar. Þannig hafa stjórnvöld ekki aðeins sett sér markmið heldur stigið stór skref í stuðningi við rannsóknir, þróun og nýsköpun.

Það er bjargföst trú mín að mikil tækifæri felist í fjórðu iðnbyltingunni fyrir íslenskt samfélag. Áhersla á nýsköpun eykst sífellt og hér er menntunarstig hátt. Metfjöldi er í umsóknum í háskólanám og ríkisstjórnin hefur ákveðið að tryggja bæði framhalds- og háskólum nægt fjármagn til að mæta metaðsókn í skólana. Við verðum einnig að tryggja sanngjarnt skattumhverfi svo að hér þrífist samkeppnishæft atvinnulíf, auka aðhald í rekstri ríkisins og hámarka það sem við fáum úr hverri krónu. Við verðum að einfalda regluverk og styðja hraustlega við bakið á nýsköpun, sem er forsenda uppbyggingar og nýrra tækifæra.

Góðir landsmenn. Hlustum ekki á úrtöluraddir eða þá sem nærast á að halda svartsýnustu spám á lofti. Þær rætast sjaldnast. Við munum komast í gegnum erfiðleikana saman og uppskera eins og til er sáð. — Góðar stundir.