150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:47]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mjög mikilsvert og mikilvægt mál sem varðar hagsmuni alls samfélagsins og varðar líka hagsmuni þeirra sem munu fylgja okkur, afkomenda okkar sem munu búa hér á landi. Við vitum að land á eftir að verða æ dýrmætara eftir því sem fram líða stundir í kjölfar þess að mannkynið mun æ meira súpa seyðið af loftslagsáhrifum með þeim afleiðingum að fólk mun sækja æ meira á norðurhvel jarðar og þar á meðal á svæði eins og Ísland. Það að eiga landflæmi nú til dags, sem kannski kann að virðast verðlítið, getur skilað miklum ábata eftir langan tíma og hið sama gildir að sjálfsögðu um vatnið og aðrar auðlindir.

Hér er líka verið að bregðast við raunverulegum vanda eða við getum kannski frekar sagt raunverulegri ógn við hagsmuni samfélagsins sem er sú að þá færist land og auðlindir sem því fylgja á of fárra hendur með þeim hugsanlegu afleiðingum að aðgangur verði takmarkaður að þeim gæðum sem landinu fylgja og þeim gæðum sem við höfum vanist öldum saman að líta á sem sjálfsagðan almenning. Einnig er verið að bregðast við því hér að á seinni árum hafa komið fram aðilar sem hafa safnað landi markvisst, keypt jarðir. Þetta hefur svo sem verið þjóðaríþrótt íslenskra höfðingja um aldir, þ.e. jarðabrask, að braska með jarðir, en á seinni árum höfum við séð koma upp félög sem kaupa markvisst upp jarðir og land. Við vitum að samfélagslega getur slíkt verið ákveðin ógn ef eignarhald á landi og öðrum gæðum þjappast of mikið á fárra hendur. Ég held því að við þurfum að huga að þessum málum.

Við þurfum að leggjast í vinnu við lagasetningu um þessi mál. Ég er alveg sammála því sem hefur komið fram í máli annarra hv. þingmanna um það og er ekki seinna vænna að hefja þá vinnu því að hér hefur alveg áreiðanlega ríkt of mikið andvaraleysi um þessi mál. Engu að síður finnst mér umsagnir um málið og vinnsla málsins innan hv. allsherjar- og menntamálanefndar benda til þess að við séum ekki alveg tilbúin að ljúka þessu máli. Umsagnir hafa sumar hverjar verið afar neikvæðar. Við höfum fengið umsagnir frá þeim sem telja ekki nógu langt gengið í að takmarka jarðasöfnun fárra einstaklinga og svo höfum við fengið umsagnir frá öðrum sem telja að hér sé vegið að eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar og að allt of langt sé gengið í því að takmarka kaup á landi. Þarna er, eins og ævinlega, sjálfsagt einhver millivegur og ég er ekki viss um að við séum búin að finna rétta milliveginn og ég er ekki viss um nema að umræðan þurfi að eiga sér stað, þurfi að þroskast eins og sagt er, og þurfi að fara fram á kannski einhverjum öðrum forsendum en þeim sem hún hefur dálítið mikið farið fram á, sem eru þær forsendur að ævinlega er talað um kaup tiltekins bresks auðmanns og þá starfsemi sem þeim kaupum fylgir og talað er um að reisa þurfi rönd við slíkum umsvifum, en síður er kannski talað um þetta á almennari hátt, þannig að við erum ef til vill að bregðast við sértækum vanda á aðeins of almennan hátt, sem nær fullmikið til of margra.

Þetta varðar markaðslögmálin og það hvernig við sjáum fyrir okkur að markaðslögmálin starfi í samfélagi okkar. Ég held að mjög fá okkar séu á þeim stað að vilja alveg afnema markaðslögmálin og að markaðurinn skuli ekki fá að gilda neins staðar, heldur skiptumst við í flokka dálítið eftir því hvernig við lítum á að markaðurinn skuli nýttur. Auðvitað á markaðurinn aldrei, ekki í þessu frekar en öðru, að vera óheftur, óbeislaður og það er ekki rétt leið að gefa öll viðskipti frjáls án nokkurs eftirlits eða nokkurra takmarkana. En ég tel svona almennt talað engu að síður að það hafi staðið uppbyggingu atvinnulífs til sveita og í íslensku dreifbýli fyrir þrifum að fjármagn hefur vantað. Það fjármagn hefur vantað sem fylgir iðulega því þegar markaðslögmálin fá dálítið lausari tauminn. Ég held að það sé varasamt að grípa kannski of mikið inn í það þegar við sjáum viðleitni í þá átt að peningar eru farnir að sjást meira í dreifðum byggðum með þeirri uppbyggingu sem þeim fylgir. Eins og þetta mál horfir við mér sýnist mér að hér sé stefnt að of mikilli miðstýringu og ég held að miðstýring hafi verið ákveðin meinsemd í uppbyggingu atvinnulífs til sveita hér á landi og í dreifðum byggðum landsins og mér finnst eima eftir af þeim hugsunarhætti að það þurfi forsjá aðila sem þekkja betur til. Það eimir eftir af þeim hugsunarhætti í 8. gr. frumvarpsins sem felur ráðherra mikið vald til að skera úr um slík viðskipti.

Mér finnst kannski að aðalatriðið í þessu eigi að snúast um, og ég hygg svo sem að við séum öll sammála um það, nýtingu landsins og að landið sé nýtt á sjálfbæran, uppbyggilegan og fallegan hátt og það sé ræktað og nýtt. Og svo þurfum við líka að gæta þess að ekki verði of mikil samþjöppun eigna. Málið snýst í grunninn um að gæta þess að auðlindir okkar safnist ekki á of fárra hendur, þ.e. vatnsréttindi, veiðiréttindi og þar fram eftir götunum. Ég held að til þess að takast á við þennan vanda væri kannski hugsanlega hægt að dusta rykið af nýju stjórnarskránni. Í gömlu stjórnarskránni, í ríkjandi stjórnarskrá, þeirri sem við fengum úr föðurhendi, eins og segir í kvæðinu, er ekkert að finna nema eignarréttarákvæðin sem sumir hafa talað um. En í frumvarpi að nýju stjórnarskránni eru ákvæði sem gætu dugað okkur í þessu. Þar segir til að mynda, með leyfi forseta:

„Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.“

Í frumvarpi að nýju stjórnarskránni sem við eigum nú eftir að samþykkja en gerum vonandi fyrr en síðar stendur líka, með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna og réttindanna í umboði þjóðarinnar.

Óheimilt er að framselja beint eða óbeint með varanlegum hætti til annarra aðila réttindi yfir jarðhita, vatni með virkjanlegu afli og grunnvatni, sem og námaréttindi, í eigu ríkisins eða félaga sem alfarið eru í eigu þess. Sama gildir um réttindi yfir vatni, jarðhita og jarðefnum á ríkisjörðum umfram lágmarksréttindi vegna heimilis- og búsþarfa.“

Þarna virðist mér að sé að finna kannski ramma sem hægt væri að nota til að skapa lagaumhverfi sem gæti verið til þess fallið að standa vörð um það að auðlindir þjóðarinnar, sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, falli ekki í fárra hendur.

Ég tel að um þetta hafi orðið allt of stutt og lítil umræða enn sem komið er og að hún hafi farið fram á of þröngum forsendum. Ég hef áhyggjur af þeim neikvæðu umsögnum sem málið hefur fengið og mér virðist að þarna gæti verið hvatt til of mikillar miðstýringar við að greiða úr þessum málum.

Að þessu öllu sögðu er rétt að það komi fram að ég tel málið að mörgu leyti jákvætt og ég tel að mikilvægt sé að taka á þessu og að við bregðumst við og reynum að skapa lagaumhverfi í kringum þessi viðskipti.