150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[14:25]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka sömuleiðis seinna andsvar hv. þingmanns. Ég ætla ekki að fella neina dóma um það sem ég sakna mest að ekki hafi verið tekið tillit til í umsögnum sem sendar hafa verið. Ég ætla aðeins að segja að það eru gríðarlega mörg sjónarmið uppi. Ég ætla ekki að segja að ég sé endilega sammála öllum sjónarmiðum Landssamtaka landeigenda eða Bændasamtaka Íslands, sem mér heyrðist hv. þingmaður aðeins vera að vísa til að stæðu mér kannski næst, síður en svo vegna þess að við verðum að hafa getu til þess hér á Alþingi að horfa breiðar yfir sviðið en að tína kannski endilega út með þeim hætti.

Ég ætla aðeins að undirstrika þetta: Mér finnst, virðulegur forseti, að við þurfum að nálgast þetta mál vítt ef við erum sammála um að það sé vandamál að jarðir hverfi úr byggð og eignarhaldið færist fjær. Ég ætla líka að draga það hér inn að mér finnst þurfa að taka á því hvert er fyrirsvar þessara eigna, af því það er líka stórt vandamál þegar eigendur eru orðnir margir. Ef við værum sammála um þetta þá held ég að við getum nálgast það líka út frá því sem ég var að fara yfir í minni ræðu, hvernig viðskiptaumhverfi jarða er til áframhaldandi búskapar og búsetu. Slíkir rammar og slík reglusetning eru mjög algeng í löndum í kringum okkur og alveg þess virði að við tökum einhvern part af því upp hjá okkur.