150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:51]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Um þetta mál hafa orðið allverulegar umræður hér í þingsal, sem þekkt er, og því þótti meiri hluta fjárlaganefndar ábyrgt og rétt að halda áfram umfjöllun um málið og árétta ýmis atriði í framhaldsnefndaráliti. Að öðru leyti vísum við í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar um málið á þskj. 1648. Hér eru dregin saman nokkur þau álitaefni sem hæst fóru í þeirri miklu umræðu sem hér fór fram.

Samkomulag um framkvæmdir í samgöngumálum, samgöngusáttmálinn, er mikilvægur áfangi í að hefja markvissa uppbyggingu á samgöngumannvirkjum. Tilurð þess byggist á því að vettvangur skapist til að leysa flóknar viðræður um skipulagsmál við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, í þeim tilgangi hefur stofnun opinbers hlutafélags verið valin sem leið. Sáttmálinn byggir undir ákvarðanir um nauðsynlegar framkvæmdir um byggingu t.d. stofnbrauta og framkvæmdir vegna almenningssamgangna. Nauðsynlegt er að hafa það í huga að heildarsamkomulagið verður að ganga upp til að markmið samkomulagsins náist. Allar úrbætur og aðkoma ríkis og sveitarfélaga eru því samvinnuverkefni og framgangur samningsins byggist á að greiða leið framkvæmda.

Þetta vildum við árétta í upphafi nefndarálits okkar og setja sáttmálann í það ljós að í raun og veru hafi verið samið um félagið, eða leiðina sem er valin til að taka utan um þetta stóra verkefni, í svokölluðu samkomulagi um skipulag og fjármögnun um uppbyggingu á samgönguinnviðum. Við fjöllum í framhaldsnefndaráliti okkar eilítið um stofnun félagsins þar sem við áréttum að mikilvægt sé að koma félaginu á fót svo fljótt sem auðið er. Það gegnir lykilhlutverki við að halda utan um allar framkvæmdir og við birtum samkomulagið í heild sinni til að hnykkja á þeim framkvæmdum sem þar eru. Við fjöllum eilítið um að mikilvægt sé að festa sé til staðar í stjórn félagsins og æskilegt að ekki séu ör skipti á stjórnarmönnum. Þetta opinbera hlutafélag um uppbygginguna mun verða mikilvægt félag og þess vegna mikilvægt að festa sé í starfsemi þess. Við reynum því að ramma það inn í leiðbeiningum okkar.

Það var líka talsverð umræða um skipulagsmál á landi ríkisins við Keldur og þar segir í framhaldsnefndaráliti okkar, með leyfi forseta:

„Brýnt er að forgangsraða skipulagsmálum til þess að eyða óvissu sem aftur getur tafið fyrir einstökum framkvæmdum. Sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu ber að forgangsraða þeim málaflokki með þeim hætti að ekki komi til tafa á sjálfri framkvæmdaáætluninni.“

Þarna vildum við bara hnykkja á því að þessi farvegur verði að virka til að ná framkvæmdunum sem um er samið í höfn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gert verði sérstakt samkomulag við félagið um afhendingu Keldnalandsins. Við fjöllum aðeins um forsendur þess að við afhendum þetta land en annað meginverkefni hins opinbera hlutafélags er að þróa Keldnalandið og gera úr því verðmæti.

Við fjöllum einnig um skipulagsmál að öðru leyti. Við segjum m.a. að mikilvægt sé að leysa úr skipulagsatriðum varðandi stór verkefni á höfuðborgarsvæðinu sem fjallað er um í samkomulaginu. Af því að umræðan hafði snúist um einstakar framkvæmdir vildum við aðeins hnykkja á því að mikilvægt væri að leysa fyrst úr skipulagsatriðum til að greiða úr tengingu aðliggjandi stofnbrauta sem þessu tengjast, svo sem hinnar margfrægu Sundabrautar.

Við segjum hér, með leyfi forseta:

„Hvað tengingu við Sundabraut varðar þarf að vinna skipulag hennar og Sæbrautarstokks í samhengi, enda má líta á Sæbrautarstokk sem fyrsta áfanga Sundabrautar.“

Eins og í fyrra áliti okkar leggjum við áherslu á mikilvægi þess að vinna nú þegar að ljósastýringarmálum og við hnykkjum á því. Við fjöllum eilítið um þessa ljósastýringu en það hefur komið fram í þessari umræðu að hún er í raun og veru það verk sem við viljum láta vinna sem hraðast og best í þessari röð framkvæmda.

Við fjöllum síðan um ramma samkomulagsins. Verkefnið miðast við fjármögnun upp á 120 milljarða kr. og við hnykkjum á því, sem við segjum reyndar í fyrra nefndaráliti, að allar fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs þurfi hljóta staðfestingu í samgönguáætlun, fjármálaáætlun og fjárlögum hvers árs. Það er ekki þar með sagt að með afgreiðslu frumvarps um hið opinbera hlutafélag sem þarna á að byggja upp og þeim framkvæmdalista sem því fylgir sé aðkoma Alþingis að röðun verkefna og tilurð þeirra frá heldur þarf þessara framkvæmda allra að sjást stað í samgönguáætlun og síðan í fjármálaáætlun og fjármögnun í fjárlögum hvers árs.

Það var einnig talsverð umræða um skipan mála hjá félaginu. Meiri hluti fjárlaganefndar hnykkir á því í framhaldsnefndarálitinu og segir:

„Í lögum nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, er skilgreint að opinberar framkvæmdir skuli fylgja ákveðinni boðleið sem skiptist í fjóra áfanga. Áfangarnir fjalla um frumathugun, áætlanagerð, sjálfa verklegu framkvæmdina og skilamat. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja ákveðin gæði áætlanagerðar í undirbúningi og verklegum framkvæmdum. Vegagerðin og Framkvæmdasýsla ríkisins fylgja þessum áföngum nú þegar við undirbúning framkvæmda, t.d. vegna vegagerðar, sem fjármagnaðar eru í samgönguáætlun.

Meiri hlutinn bendir á að félaginu ber að fylgja þessum sömu áföngum í vinnu sinni um samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu.“

Við hnykkjum í lokin á því að tilgangur félagsins snúi eingöngu að sameiginlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja auk þróunar og sölu á byggingarlandi. Ekki er gert ráð fyrir öðrum rekstri. Þegar mannvirkin komast í rekstur færist rekstur þeirra til Vegagerðarinnar og, eftir atvikum, viðkomandi sveitarfélaga í samræmi við ákvæði vegalaga, sem við hnykkjum reyndar á á öðrum stað í þessu framhaldsnefndaráliti og tökum þar af leiðandi undir meirihlutaálit samgöngunefndar þess efnis.

Við segjum svo að lokum, virðulegur forseti:

„Við slit félagsins ganga eignir þess og skuldbindingar til eigenda í samræmi við eðli og gerð samgönguframkvæmda og eignarhluta eigenda. Áætlaður starfstími félagsins er 15 ár.“

Hv. þingmenn Björn Leví Gunnarsson, Inga Sæland og Ágúst Ólafur Ágústsson skrifa undir nefndarálitið með fyrirvara en að öðru leyti skrifar meiri hluti fjárlaganefndar undir það í þessari röð, hv. þingmenn Willum Þór Þórsson formaður, Haraldur Benediktsson framsögumaður, Páll Magnússon, Njáll Trausti Friðbertsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Björn Leví Gunnarsson, með fyrirvara, Inga Sæland, með fyrirvara, og Ágúst Ólafur Ágústsson, með fyrirvara.