150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er við hæfi að hefja þennan lokaáfanga þingsins á þeirri umræðu sem hér fer fram. Það er ekki við öðru að búast en að sýn þingmanna sé ólík á það hvort nægilega hafi verið sinnt öllum þeim aðkallandi verkefnum sem okkar bíður að sinna við þær aðstæður sem hér hafa skapast vegna þessa heimsfaraldurs.

Mig langar til að koma inn á nokkur atriði sem mér finnast standa upp úr í þessu. Í fyrsta lagi finnst mér standa upp úr að samstaðan sem myndaðist strax á fyrstu dögum veirunnar á Íslandi hefur reynst okkur alveg ótrúlega dýrmæt. Hún var ekki sjálfgefin. Hún myndaðist m.a. vegna þess að sleginn var réttur tónn hér í þinginu og á grundvelli þeirrar miklu samstöðu tókst okkur að ná árangri í fyrstu aðgerðum okkar. Það er í sjálfu sér alveg rétt sem komið hefur fram í mörgum ræðum í dag, að markmiðið, takmarkið, hefur aðeins verið að breytast. Í fyrstu snerust allar aðgerðir okkar um að koma í veg fyrir að við myndum ofgera getu heilbrigðiskerfisins til að fást við vandann. Hættan var sú að ef veiran myndi breiðast hratt út í samfélaginu myndi heilbrigðiskerfið einfaldlega ekki ráða við það. Það sáum við af sjónvarpsmyndum frá öðrum löndum og vissum að sú hætta var raunveruleg. Ég held að óhætt sé að segja að okkur hafi tekist vel að ná þessu meginmarkmiði, fyrsta og fremsta markmiði okkar, á fyrstu dögum og vikum aðgerða ríkisstjórnarinnar og þingsins. En það gerðum við ekki ein heldur gerðum við það í krafti þeirrar samstöðu sem myndaðist í samfélaginu.

Í kjölfarið fylgdu síðan fyrstu viðbrögð okkar í ríkisfjármálum, í efnahagsaðgerðum, og gripið var til þeirra aðgerða þrátt fyrir gríðarlega mikla óvissu á þeim tíma. Þannig voru sumar aðgerða okkar einungis til nokkurra vikna vegna þess að við sáum á þeim tíma ekki lengra inn í framtíðina en til næstu vikna. Það kann að hljóma undarlega í dag en þá fór fram alvöruumræða um hvort við ættum að hafa sum úrræðin, eins og t.d. í hlutabótaleiðinni, tveimur vikum lengur eða skemur í gildi. Í millitíðinni höfum við framlengt aðgerðir og erum núna að koma saman til að framlengja þær að nýju. Þetta er allt saman í takt við aðstæður. Ég verð að segja að mér finnst vera lítill efnislegur grundvöllur undir þeirri gagnrýni sem hér heyrist, að ríkisstjórnin skuli ítrekað koma með framlengingar á einstökum aðgerðum eða kynna til sögunnar ný úrræði, vegna þess að það er eiginlega nákvæmlega það sem við þurfum að geta gert, brugðist við aðstæðum og komið með tillögur sem tala inn í ástand eins og það þróast frá einum tíma til annars.

Að þessu leytinu til held ég að okkur hafi tekist vel til með okkar fyrstu aðgerðir en við erum í þeirri óþægilegu stöðu að engin ein ákvörðun mun leysa þann vanda sem við okkur blasir, heldur mun vinnan einfaldlega halda áfram. Það er þess vegna að birtast okkur hér á þeim fáu dögum sem þingið kemur saman núna að við erum enn að bregðast við. Við erum að leggja grunn að næstu fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarpi og áfram er þess að vænta að ríkisstjórnin komi með viðbótaraðgerðir, allt eftir því hverju fram vindur. Þetta er einfaldlega eðli þeirrar ytri ógnar sem við erum að fást við og þetta eru réttu viðbrögðin, að vera sveigjanleg, tilbúin til þess að breyta þegar aðgerðir ganga ekki upp, grípa til nýrra úrræða sem eru líklegri á grundvelli nýrra upplýsinga eða reynslu og kynna þau til sögunnar og stíga þannig ölduna þegar það er ofboðslega mikill órói á þeim sjó sem við erum að sigla.

Mér finnst dálítið merkilegt hvað lítið hefur verið rætt um að okkur tókst í reynd að útrýma veirunni sem var hér á ferðinni í vor. Það mynstur veirunnar sem þá var á ferðinni á Íslandi finnst ekki lengur. Það sýnir alveg ótrúlega mikinn árangur hér innan lands í sóttvörnum og í aðgerðum gegn útbreiðslu veirunnar. Við fengum inn ný afbrigði veirunnar með annað mynstur og erum enn að kljást við útbreiðslu þeirra, en við getum þá farið í þær aðgerðir dálítið sigurviss vegna þess að við höfum reynslu af því að kveða niður, og kveða alveg í kútinn, þau eintök veirunnar sem verið hafa hér á ferðinni áður. Við erum hins vegar ekki að boða að við getum útrýmt veirunni. Við erum áfram með það meginmarkmið að verja líf og heilsu fólks og reyna að lágmarka efnahagsleg áhrif af útbreiðslu veirunnar á hag heimilanna í landinu og auðvitað um leið atvinnustarfseminnar. Það eru markmiðin sem við erum að vinna að. Aðferðirnar verða að vera breytilegar eftir því hvernig gengur hverju sinni og hvernig faraldurinn þróast áfram.

Varðandi landamærin þá er þetta ein erfiðasta ákvörðunin sem við stöndum frammi fyrir. Nýjustu aðgerðir okkar hafa einfaldlega tekið mið af því að við höfum misst í gegnum landamærin þessi nýju eintök af veirunni og útbreiðsla veirunnar er í vexti í öðrum löndum. Á meðan við erum að leggja mat á hvernig við getum sem best verndað innlent samfélag gegn frekari áföllum af þessum völdum gilda þær reglur sem nú hafa verið kynntar. En vonandi getum við slakað á þeim sem allra fyrst. Það er ekki alfarið í okkar höndum hvenær það gerist. (Forseti hringir.) En ég tek undir með þeim sem segja að við þurfum að leggja sem fyrst fyrir forsendur þess að ákvörðun verði tekin um slíkt, þ.e. að skýrt verði hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt til þess að sú ákvörðun verði tekin. Ferðaþjónustunni er enginn greiði (Forseti hringir.) gerður með því að opna landamærin ef hlutirnir eru í ólagi á Íslandi. Það munu engir ferðamenn vilja koma til Íslands ef hótelin eru lokuð (Forseti hringir.) og veitingastaðir allir lokaðir vegna þess að veiran er enn þá að dreifa úr sér.