150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hækkun atvinnuleysisbóta.

[13:44]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst segja að mér finnst áhugavert að þingmenn stjórnarandstöðunnar séu búnir að ákveða að allt sem gerst hafi í gær sé orðin sagnfræði. Mér finnst það skemmtilegur samhljómur með þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Ég er ekki viss um að sagnfræðingar myndu kalla það sagnfræði sem verið var að kynna í fyrradag. (Gripið fram í.) En gott og vel. Þetta er kannski til marks um að stjórnarandstaðan hefur loks fundið einhvern samhljóm. Ég óska ykkur bara til hamingju með það.

Ég vil taka það fram að engar aðgerðir eru útilokaðar í þeim aðstæðum sem við erum í. Það er ekki þannig. Okkur fannst þetta mikilvægasta skrefið að stíga núna, þ.e. að lengja þetta tekjutengda tímabil til að koma til móts við þá sem hafa verið að missa vinnuna í faraldrinum. Ég tel að það sé mjög gott skref.

Af því að hv. þingmaður vísaði til ýmissa annarra félagslegra þátta ætla ég að fara í aðeins meiri sagnfræði og rifja það upp að þessi ríkisstjórn er m.a. einmitt búin að vera að tryggja stuðning til tekjulágra fjölskyldna til að styðja við tómstundir barna, bara svo eitt dæmi sé nefnt, og að þessi ríkisstjórn er líka núna (Forseti hringir.) að kynna menntaúrræði fyrir atvinnuleitendur upp á 2 milljarða kr. sem ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að sé eitt það mikilvægasta sem við getum gert í þeim aðstæðum sem nú blasa við. (Forseti hringir.) Þannig að ég held að þegar við ræðum þessi mál þurfum við einmitt að horfa á þetta samhengi hlutanna.